Leikfélag Hafnarfjarðar sýnir um þessar mundir barna- og fjölskylduleikritið Sjóræningjaprinsessuna eftir Ármann Guðmundsson. Þau bjóða félögum í LK á sýninguna, aðeins þarf að hafa samband við miðasölu og láta vita að um þetta tilboð sé að ræða. Verkið er í leikstjórn Lárusar Vilhjálmssonar og sýnt er í Gaflaraleikhúsinu. Í kynningu segir svo:

Verkið fjallar á ærslafenginn hátt um ævintýri barnanna Soffíu og Matta sem alist hafa upp hjá gistihúsinu Sporðlausu hafmeyjunni á friðsælli eyju í Suðurhöfum allt frá því að Soffía kom þangað með dularfullum hætti sem ungabarn. Ólíkt Matta, uppeldisbróður sínum, þráir hún að lenda í ævintýrum og heldur því statt og stöðugt fram að hún sé sjóræningjaprinsessa, fósturforeldrum sínum til mikillar armæðu. En svo gerist það eitt óveðurskvöld að tveir grunsamlegir náungar skjóta upp kollinum á Sporðlausu hafmeyjunni og áður en Soffía veit af er hún komin út á rúmsjó með stórhættulegum og ótrúlega heimskum sjóræningjum á leið til Milljónmaðkaeyju þar sem mannætur ráða ríkjum.

Nánar á vef Gaflaraleikhússins.