Fjörug, fræðandi og skemmtileg leiksýning sem er sérstaklega ætluð yngstu áhorfendunum – og þeim sem eru ungir í anda.

Sýningar:

Lau. 15. okt. kl. 15:00
Sun. 23 okt. kl. 13.00
Lau. 29 okt. kl. 13.00
Sun. 30 okt kl. 13.00
Sun. 6. nóv. kl. 13.00
Lau. 12. nóv. kl. 13.00
Sun. 13. nóv. kl. 1300

leitinbanner01Verkið fjallar um hann Jón sem þekkir ekki annað en eilíft sumar. Dag einn fara skrýtnar persónur að ryðjast inn í líf hans, hver á fætur annarri og skipta um árstíðir. Jón er í fyrstu alls ekki sáttur við þessar breytingar, en lærir smám saman að hver árstíð hefur sína kosti og galla.
Í sýningunni er lögð áhersla á að börnin taki þátt með skemmtilegum hætti og upplifi þannig leikhúsið á nýjan og áhugaverðan hátt. Leitin að sumrinu er samin af leikurunum þremur.

Tónlist og öll leikhljóð eru einnig leikin og framkvæmd á staðnum, af leikurunum sjálfum og ef þannig vill til með hjálp áhorfenda og verður því heimur sýningarinnar og upplifunin enn raunverulegri og skemmtilegri fyrir vikið. Leikarar eru þrír, Ástþór Ágústsson, Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson og Magnús Guðmundsson. Leikritið er sýnt í Leikhúsinu, Funalind 2, húsnæði Leikfélags Kópavogs.

Aðstandendur sýningarinnar:

astorÁstþór Ágústsson útskrifaðist af European Theatre Arts brautinni við Rose Bruford College vorið 2007. Síðan þá hefur hann leikið með ýmsum leikhópum, bæði í London og hér heima, helst ber að nefna Bottlefed, DifferenceEngine, Spindrift Theatre, auk HalfCut, sem Ástþór stofnaði ásamt tveimur öðrum og fékkst við gagnvirkar sýningar af ýmsum stærðargráðum. Ástþór hefur leikið í ýmsum uppfærslum hjá LK síðan árið 2001.

 

gummiGuðmundur Lúðvík Þorvaldsson nam leiklist í Los Angeles í New York Film Academy. Hann hefur leikið i nokkrum áramótaskaupum, í Fangavaktinni og Rétti 2, ásamt þess að leika í nokkrum bíómyndum. Guðmundur hefur auk þess leikstýrt nokkrum sýningum og skrifað fyrir áhugaleikhús. Þá hefur hann séð um unglinganámskeið á vegum Leikfélags Kópavogs fjórum sinnum. Guðmundur er einn af stofnendum Leikhópsins Lottu og lék með þeim í Dýrunum í Hálsaskógi, Rauðhettu og Hans klaufa. Hann hefur leikið í ótal uppfærslum hjá LK.

magnusMagnús Guðmundsson útskrifaðist með BFA gráðu frá Leiklistardeild Listaháskóla Íslands 2007. Hann hefur tekið þátt í hinum ýmsu verkefnum eftir útskrift m.a. Billy Elliot, Línu Langsokk, Fólkinu í blokkinni og Milljarðamærin snýr aftur í Borgarleikhúsinu. Einnig tók hann þátt í Töfraflautunni í uppsetningu Íslensku Óperunnar, Útundan, Póker og School of Transformation í Tjarnarbíói. Ævintýri Múnkhásens í Gaflaraleikhúsinu og Blakkát þar sem hann lék ásamt að vera danshöfundur. Já elskan (Dansverk). Fjársjóðsleit með Ísgerði í Norðurpólnum. Lífsins karnival í Íslensku óperunni.

Magnús hlaut tilnefningu til Grímunnar fyrir leik sinn í sýningunni Fool For Love og þá hlaut hann Grímuverðlaunin sem meðlimur Stoppleikhópsins fyrir barna- og unglinga-sýningu ársins, Bólu- Hjálmar. Magnús var meðlimur í unglingadeild LK á sínum tíma og meðal sýninga LK sem hann hefur leikið í má nefna Kakófóníu og Hljómsveitina.

Þremenningarnir léku auk þess allir saman í leiksýningunni Grimms hjá Leikfélagi Kópavogs árið 2002-03 undir leikstjórn Ágústu Skúladóttur en sú sýning hlaut fjölda viðurkenninga. Grimms var m.a. valin Athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins af dómnefnd Þjóðleikhússins og var sýnd á hinum ýmsu menningar- og leiklistarhátíðum innanlands sem utan.

Búningar: Dýrleif Jónsdóttir
Lýsing: Skúli Rúnar Hilmarsson
Leikmynd: Leikhópurinn og fleiri.
Ráðgjöf og ýmis aðstoð: Gunnar Björn Guðmundsson, Hörður Sigurðarson, Klæmint Henningsson Isaksen, Jón Stefán Sigurðsson.

Auk ofangreindra er dyggur hópur aðstoðarfólks hjá Leikfélagi Kópavogs sem stendur að sýningunni.