Bjarni Guðmarsson ritaði. Vinna við sögu LK fram á okkar daga stendur yfir.

Um farinn veg

Árið 1956 var Kópavogur – yngsti kaupstaður landsins – bær í örri sókn. Íbúafjöldinn óx hratt, taldi orðið liðlega fjögur þúsund sálir, og kröfugerð bæjarbúa óx að sama skapi. Þeir heimtuðu vatnsveitu og gatnagerð og skóla og almenningssamgöngur – hamingjan mátti vita hvar sá langi listi myndi enda ef hann gerði það þá nokkurn tíma. Á meðan æðimargir Kópavogsbúar brutu heilann um fyrirkomulag sorphirðu og nútímalegt klóak fyrir bæinn voru aðrir komnir á þá skoðun að bæjarmenn þyrftu líka á menningu að halda og skemmtun í bland. Þessir voru að bollaleggja að koma á fót leikfélagi til að fóðra andann á hressilegri skemmtan og uppbyggjandi íslenskri leiklist.

Forspil að fjölbreyttu menningarstarfi

Brátt leið að því að talið var óhætt að kynna þessi háreistu áform fyrir alþýðu Kópavogs og boðað var til formlegs stofnfundar í barnaskóla bæjarins, Kópavogsskóla, hinn 5. janúar 1957. Þar gerðust 46 fundarmenn stofnfélagar Leikfélags Kópavogs, en svo var selskapurinn kallaður. Og þá var hægt að taka til óspilltra málanna.

Auðvitað var þetta ekki svona einfalt, á undan höfðu farið heilmiklar bollaleggingar og heilabrot þótt fátt segi af. Það eitt er víst að þeir sem eru taldir eiga mestan heiður af því að ýtt var úr vör voru: Erlendur Blandon, sem var kosinn fyrsti formaður félagsins, Inga Blandon, Árni Sigurjónsson, Guðrún Þór, Auður Jónsdóttir, Hulda Jakobsdóttir, Sveinn Halldórsson, Loftur Ámundason, Ágústa Björnsdóttir, Guðmundur Guðmundsson, Sigríður Einarsdóttir, Magnús Bæringur Kristinsson, Sólveig Sandholt og Gunnar Hallgrímsson.

80450068Sennilega hefur það verið með fyrstu verkum nýrrar stjórnar að svipast um eftir heppilegu sýningarhúsnæði fyrir félagið unga. Það hefði þá verið fljótgert því þar er skemmst frá að segja að um þær mundir kom einungis eitt hús í bænum til álita í þessu efni, nefnilega barnaskólahúsið við Digranesveg. Hús þetta hafði verið sannkallað fjölnotahús frá því það var tekið í gagnið í byrjun árs 1949; auk þess að vera menntasetur og bæjarbókasafn voru þar m.a. haldnir borgarafundir og dansiböll, guðsþjónustur og heilmargt fleira. Er þess náttúrlega skemmst að minnast að stofnfundur leikfélagsins fór einmitt þar fram. Og nú hafði hugvitssömum bæjarmönnum sem sé dottið í hug að dubba skólann upp sem leikhús.

Frímann Jónasson skólastjóri var sennilega orðinn ýmsu vanur þegar nýjasta hugdettan um hlutverk skólahússins barst inn á borð. Án frekari umsvifa var hinu glænýja leikfélagi fengnar rúmgóðar skólastofur tímabundið til umráða, tvær samliggjandi stofur urðu að leiksal og sú þriðja að aðstöðu leikenda. Þá var fátt að vanbúnaði.

mynd1Sprellað í skólastofu

Leikstjóri var þegar fenginn, Ingibjörg Steinsdóttir að nafni. Hún hafði menntað sig í Þýskalandi og starfað talsvert með Leikfélagi Reykjavíkur að námi loknu og ennfremur tekist á hendur leikstjórn fyrir ýmis áhugaleikfélög úti um landið. Og ágætt samkomulag tókst um fyrsta viðfangsefnið. Brátt kvisaðist að Leikfélags Kópavogs æfði af kappi í skólanum hinn sprenghlægilega gamanleik Spanskfluguna eftir þá Franz Arnold og Ernst Bach – ekki kannski það allra hátimbraðasta frá menningarlegum sjónarhóli en verkið hefur til skamms tíma verið eitt hið ástsælasta hér á landi – raunar var nokkuð um liðið frá því það var síðast á fjölum í höfuðborginni um þessar mundir og því kannski ekki goðgá að halda að talsverð eftirspurn gæti verið eftir því.

Ingibjörg Steinsdóttir var ekki síður margreynd í sínu fagi en Frímann skólastjóri í sínu og hún kallaði ekki allt ömmu sína. Það var sennilega eins gott því þessa janúardaga árið 1957 lyfti hún grettistaki við að þjálfa mannskap þar sem langflestir voru að stíga sín allra fyrstu skref á leiksviðinu. Og aðstæðurnar að öðru leyti engin óskastaða þótt reynt væri að tjalda því sem til var. Dálitlum palli var komið fyrir í annarri skólastofunni – þar var sviðið. En áhorfendur sátu á skólabekkjunum framanvið.

Þrátt fyrir vanefnin og hin afar frumstæðu skilyrði fór það að endingu þannig að blásið var til frumsýningar hjá hinu glænýja Leikfélagi Kópavogs laugardaginn 23. febrúar árið 1957 og þóttu slík býsn að frétt þar að lútandi var sett á baksíðu Morgunblaðsins.

Við hæfi hefur þótt að stimpla félagið formlega inn með afgerandi hætti og því var það að Brynjólfur Dagsson læknir bauð leikhúsgesti velkomna í upphafi sýningarinnar með stuttu ávarpi og rakti aðdraganda þeirra tímamóta sem nú voru að verða. Svo hófst sprellið.

Leikdómarar drógu almennt ekki úr því að nokkur viðvaningsbragur hefði verið á ýmsu í uppfærslunni hjá hinu unga leikfélagi en heilt yfir þótti sýningin nokkurt afrek miðað við aðstæður, og sviðið var meira að segja sagt „bjart og skemmtilegt og ljósin góð eftir atvikum.“ Mestu skipti þó að áhorfendur tóku leiknum mjög vel og hylltu bæði leikara og leikstjóra í lokin.

Spanskflugan var sýnd tvær helgar – á sex sýningum – í barnaskólanum. Þá varð hlé á sýningum í bænum, og hefur máske þurft að taka skólastofurnar í annað brýnna. Leikararnir lögðu þá í staðinn land undir fót og sýndu á Suðurnesjum tvær helgar, þá fyrri í Garði og þá síðari í Sandgerði. Í mars fengust skólastofur heimafyrir að nýju og var þá sýnt í tvígang og slúttað svo með stæl í Iðnó sumardaginn fyrsta undir lok apríl. Alls urðu sýningar því 11 á þessu fyrsta viðfangsefni Leikfélags Kópavogs og máttu aðstandendur vel við una.

Ævintýrið var hafið – ævintýri sem átti eftir að taka á sig hinar margvíslegustu myndir og virkja sköpunarkraft tuga Kópavogsbúa og annarra, og hreyfa við og hrífa þúsundir til viðbótar. Um það vissu leikendur í Spanskflugunni auðvitað ekki hætishót þegar þeir pökkuðu niður í síðasta sinn búningum sínum og gerviskeggi, leikmunum og öðru tilheyrandi og luku við leikárið 1956–1957.

Á ferð og flugi

Sumarið leið og um haustið voru liðsmenn LK aftur komnir á kreik í barnaskólanum á Digraneshálsi. Nú æfðu þeir upp á kraft Leynimel 13 – flugbeitt þjóðfélagsháð frá árinu 1943 sem kennt var Þrídrangi – á bak við nafnið leyndust Haraldur Á. Sigurðsson, Emil Thoroddsen og Indriði Waage – undir stjórn Sigurðar Scheving. Verkið var frumsýnt 23. nóvember og sýnt nokkrum sinnum í barnaskólanum en síðan lagt land undir fót eins og fyrri daginn og fengu að minnsta kosti Hafnfirðingar og Mosfellssveitarmenn að njóta.

leikskraEf frá er talið að félagið sýndi þáttinn Hattar í misgripum á kvöldvöku Stórstúkunnar í febrúar 1958 var lítið sjáanlegt lífsmark með félagsmönnum næstu vikur og mánuði. Kannski hefur einhverjum þá dottið í hug að leikfélagið hefði sungið sitt síðasta og allar hugmyndir um leikhús í Kópavogi væru að engu orðnar. Svo var þó ekki en líklegast er að húsnæðisvandræðin hafi átt mestan þátt í að félagsmenn töldu rétta að staldra við um sinn eða þar til úr rættist. Og í því efni var sitthvað í farvatni eins og brátt verður vikið að.

Hér mætti þó til gamans geta þess að þarna um haustið 1957 þegar farið var að auglýsa Leynimel 13 kvaddi leikfélagið sér hljóðs með sínu eigin einkennismerki sem verið hefur tákn þess æ síðan. Merkið samanstendur úr hinum sígildu leikhúsgrímum sem tákna gaman og alvöru leiksins og raunar lífsins. Að sönnu höfðu félagar leikfélagsins unga hallað sér meira að hinni brosmildu grímunni hingað til en það átti eftir að jafnast út að einhverju leyti.

Félagið átti sér nú orðið lógó … en ekkert leikhús. Brátt dró hins vegar til tíðinda hjá Leikfélagi Kópavogs eftir steinhljóð frá því í febrúar 1958 og til jafnlengdar 1959.


Efnt til félagsheimilis

Stundum undrar mann hve ýmis fyrirbrigði virðast geta stokkið alsköpuð fram eins og Aþena úr höfði Seifs. Þetta á að nokkru leyti við um Leikfélag Kópavogs. File0818Einhvern veginn hefði maður haldið að í upphafinu hefði ekki veitt af að menn einbeittu sér að því að ná tökum á galdri leiktúlkunar, undirstöðuatriðum í förðun, sviðslýsingu, búningagerð, leiktjaldamálun og yfirleitt öllu því ótalmarga sem gerir eina sviðsuppfærslu – og fæstir höfðu haft nokkra reynslu af fyrirfram. Í það minnsta hefði mörgum þótt þetta kappnóg. En nei, þetta nægði frumkvöðlum félagsins ekki og strax um sumarið – innan við hálfu ári eftir stofnun – var það komið í samkrull með fimm öðrum félögum í bænum um að hefja byggingu félagsheimilis í Kópavogi; lóð á einhverjum besta staðnum í bænum var þegar fengin. Auk leikfélagsins áttu hlut að máli Ungmennafélagið Breiðablik, Framfarafélagið, Slysavarnafélagið, Kvenfélagið og skátafélagið Kópar. Framkvæmdir áttu að hefjast strax um sumarið og til að standa straum að upphafskostnaði hlupu liðsmenn félaganna um borg og bý og seldu happdrættismiða þar sem meðal vinninga var fokhelt hús og ýmsir ferðavinningar. Öllum ágóðanum var varið til byggingarinnar.

Byggingaráform þau sem nú lágu á teikniborðinu voru engin smáplön; reist skyldi þriggja hæða hús og undir því mikla þaki vera meðal annars að finna 700–800 manna bíósal, leikhúsaðstöðu, veitingasal auk félagsaðstöðu allra félaganna sem að byggingunni stóðu, svo nokkuð sé nefnt.

Í mars 1959 var boðað vígsluhátíðar fyrsta áfanga hússins. Þá var fyrsta hæðin fullgerð og önnur hæðin steypt upp. Í þessum áfanga var meðal annars veitingasalur og annar sem tók 285 manns í sæti og var ætlaður til leik- og kvikmyndasýninga. Bærinn tók þá að sér að annast bíósýningar og veitingasölu en Leikfélag Kópavogs leiksýningar.

Bíósýningar bæjarins í félagsheimili Kópavogs (Kópavogsbíó) hófust laugardaginn 21. mars á sýningum á „hinni gullfallegu og skemmtilegu frönsku Cinemascope litmynd“ Frou–frou eða Úr lífi Parísarstúlkunnar. Og leikfélagið setti markið jafnvel enn hærra en sem nam Cinemascope-i; vígslusýning félagsins í nýju húsi var kínverskur gamanleikur þar sem vandað var til allra þátta. Víkjum að henni innan skamms.

Með tilkomu félagsheimilisins breyttust möguleikar Leikfélags Kópavogs eins og nærri má geta og listræn vaxtarskilyrði urðu nú öll önnur. Nú hafði félagið loks aðgang að því sérhæfða húsnæði og ýmsum tæknibúnaði sem metnaður þess útheimti og kröfur tímans kölluðu eftir. Hafi hins vegar einhver talið að með hinu ágæta húsi hæfist tíðinda- og allsendis áhyggjulaus kafli í sögu félagsins þar sem allt væri einlægur dans á rósum hafði sá hinn sami sannarlega rangt fyrir sér.

Í vígsluræðum félagsheimilisins hafði það verið orðað svo að efnt væri til bíósýninga þegar félög bæjarins þyrftu ekki á salnum að halda en veruleikinn varð brátt annar og grárri – bíósýningarnar urðu fljótt fjárhagslegur hornsteinn hússins og önnur starfsemi í húsinu – meðal annars leiksýningar Leikfélags Kópavogs – snarlega víkjandi. Haraldur Björnsson leikari sem var fenginn til þess árið 1963 að færa upp leikritið Mann og konu með leikfélaginu leyndi ekki aðdáun sinni að verkalokum.

„Ég dáist að þessu fólki,“ sagi hann, „Það vinnur úti allan daginn og kemur svo til æfinga undir miðnætti, því um annan æfingatíma er ekki að ræða hjá kvikmyndahúsum. Æfingarnar standa fram á nótt, og vinna allir leikarar kauplaust. Vinnuskilyrði eru eins slæm og þau gera verið, af því leikflokkurinn fær aldrei aðgang að leiksviðinu nema um hánóttina.“

Liðsmenn leikfélagsins létu þannig ekki andvökunætur slá sig út af laginu og sýndu hvers félagið var megnugt þegar skikkanlega var að því búið. Eins og fyrr segir var vígslusýning í nýja félagsheimilinu Veðmál Mæru Lindar eftir S.J. Hsiung. Höfundurinn var fræðimaður, leikari, leikskáld og blaðamaður sem hefur verið líkt við skiptiborð austurs og vesturs, hann snaraði m.a. nokkrum af verkum Shakespeare yfir á kínversku og á móti leikgerði fornar kínverskar sagnir fyrir vestrænt svið; þannig var um Veðmál Mæru Lindar, sem á frummálinu ensku hét Lady Precious Stream. Til að leikstýra uppfærslunni var fenginn Daninn Gunnar R. Hansen sem búsettur var hér á landi og hafði haft veruleg áhrif á starfsemi Leikfélags Reykjavíkur og raunar víðar – nú skyldi hann sjá um að koma Leikfélagi Kópavogs á kortið. Auk leikstjórnar sá Gunnar um leikmynd, búninga og tónlist – má nærri geta að sá hluti verksins var ekki lítill því hér þurfti að skapa trúverðugan kínverskan heim og dugðu engin gæruskinn.

Leikdómari Morgunblaðsins sló ekki af þegar hann fjallaði um menningarástand bæjarins og nýjustu uppfærslu Leikfélagsins. Hann sagði:

„Það er stórhugur í Kópavogsbúum:  Það er ekki nóg með það, að þeir séu að koma sér upp stórhýsi eða höll, sem ber hið látlausa nafn Félagsheimili og kemur til með að hýsa, að mér skilst, allt félagslíf í Kópavogs, heldur er leikfélag þeirra haldið þessum sama áræðiskrafti og sýnir um þessar mundir í framangreindu Félagsheimili kúnstir þær … sem kallast kínversk leiklist. … uppfærsla Leikfélags Kópavogs á kínverska leiknum „Veðmál Mæru Lindar“ [er] hreint afrek miðað við allar aðstæður … Það sætir furðu, hversu ólærðum og lítt reyndum leikurum tókst að stílfæra látbragð sitt og framkomu á hinn ýktasta hátt án þess að misst tök á persónusköpun og túlkun þeirra athafna, sem um er að ræða.

Leikhús í fullri stærð

Uppfærslan á Veðmáli Mæru Lindar sýndi vel hvað bjó í Leikfélagi Kópavogs og bar ekki á öðru en að hér væri komið fram leikhús sem vert væri að taka alvarlega.

Sýningar leikfélagsins í félagsheimilinu – Kópavogsbíó eins það var einatt kallað – urðu brátt að föstum punkti í bæjarlífinu, og verkefnavalið þessi fyrstu ár bar með sér að félagið vildi sinna öllum hópum til jafns en ekki bara sumum. Hér skyldi með öðrum orðum starfrækt leikhús í fullri stærð þar sem blandað var í hæfilegum hlutföllum klassík og kláru afþreyingarefni, íslenskum leikverkum og erlendum, gamni og alvöru svo fólk af öllu sauðahúsi og á öllum aldri átti að finna þar eitthvað við sitt hæfi.

Þannig var því sem næst kemst því að vera íslensk klassík gerð ágæt skil strax á fyrstu árum, með uppfærslum á borð við Mann og konu, Fjalla-Eyvind og Lénharð fógeta. Af léttara tagi má nefna gamanleikina Spanskfluguna og Saklausa svallarann og sakamálaleikritin Músagildruna, og 10 litla negrastráka. Og alls ekki má gleyma sýningum ætluðum yngstu leikhúsgestunum en þær hófust strax árið 1960 með Línu langsokk sem þar var um frumflutning að ræða á Íslandi á leikgerð sögu Astrid Lindgren og óþekktarangann Línu.

Barnaleiksýningar urðu brátt veigamikill þáttur í starfi leikfélagsins enda mikilvægt og þakklátt að sinna þessum hópi. Meðal barnaleiksýninga félagsins, auk Línu langsokks, á fyrstu starfsárunum kætti smáfólkið t.d. Rauðhetta, Húsið í skóginum og Ó, amma Bína. Loks er gaman að geta þess árið 1964 hófst félagið handa við að kynna leikhúsgestum höfuðskáld þjóðarinnar á sérstökum bókmenntakvöldum með upplestri, erindum, tónlistarflutningi og jafnvel leiknum atriðum ef því var að skipta. Einar Benediktsson var fyrstur dreginn fram en bókmenntakvöldinu urðu fastur póstur í starfseminni nokkur næstu ár, sérstök dagskrá var helguð Jóhanni Sigurjónssyni, Matthíasi Jochumssyni, Jónasi Hallgrímssyni,  Davíð Stefánssyni og Halldóri Laxness svo nokkrir séu nefndir.

Í búningasnapi undir Eiríksjökli

Margt var meira gert af vilja en mætti á þessum árum og mátti það kallast þrekvirki að þetta skyldi þó takast jafnoft og raun bar vitni. Eitt af því sem reyndist félaginu strembið var öflun búninga, einkum þegar viðfangsefnið útheimti fjölda búninga í ákveðnum stíl eða frá vissu tímabili. Átti þetta ekki síst við þegar Maður og kona var fært upp 1963 en verkið útheimtir vitaskuld fjölda búninga frá liðinni tíð. Um það sagði leikstjórinn:

„Má til dæmis benda á að búninga varð að snapa saman um allan Borgarfjörð, því of kostnaðarsamt er að taka þá á leigu hjá Þjóðleikhúsinu. Meðal annars komu fulltrúar leikfélagsins á bæ einn upp undir Eiríksjökli, þar sem 92 ára kona bjó ásamt tveimur dætrum sínum og tíu hundum. Þar fengu þeir t.d. pils úr vaðmáli, sem var ofið fyrir um 50 árum, jakka, sem var „alveg eins og nýr“, að sögn húsfreyju, þótt hann væri 42 ára, og svo grútartýru.“

Hróður félagsins óx með ári hverju og gott orð fór af á sýningunum. Þannig mátti lesa í Morgunblaðinu árið 1961:

„Leikfélag Kópavogs eflist með ári hverju undir dugmikilli forustu ágætra manna og frábærum áhuga allra félagsmanna, enda kann hið unga bæjarfélag að meta starfsemi þess …“

Og fjórum árum síðar, árið 1965 sagði í sama blaði:

„… hafa leiksýningar félagsins orðið æ betri með ári hverju og er nú svo komið að margir leikendur félagsins hafa stundað leiknám að meira eða minna leyti og hefur það að sjálfsögðu sett sinn svip á leiksýningar félagsins.“

„Leiknámið“ sem þarna er vísað til er að öllum líkindum leiklistarskóli sem Leikfélag Kópavogs og Leikfélag Hafnarfjarðar stóðu að veturna 1963–1964 og 1964–1965; skólinn starfaði þá allan veturinn, helminginn í Kópavogi en hinn hlutann í Hafnarfirði. Eftir það fékkst ekki kennari til starfa og var því sjálfhætt.

Annars hafði stjórn félagsins haft skilning á því frá fyrstu tíð að mikilvægt væri að þjálfa mannskapinn og ekki seinna en 1961 var félagið farið að efna til námskeiða fyrir félagsmenn til að þjálfa þá og leiðbeina um hvaðeina er að leikhúsrekstri laut. Þá um vorið var auglýst 4–6 vikna leiklistarnámskeið fyrir „æskufólk“ á aldrinum 18–25 ára sem hefur þá væntanlega átt að tryggja nýliðun í leikarahópnum. Kennara er ekki getið en á þessum árum munu t.d. Gísli Halldórsson, Ævar Kvaran og Lárus Pálsson hafa kennt á námskeiðum félagsins. Auk þess sem leikarar fengu sína þjálfun og fræðslu fengu aðrir félagsmenn tilsögn í förðun og leiktjaldasmíð.

Vágestur

Fyrsta kastið virtist því sem allt stefndi fram á við hjá Leikfélagi Kópavogs, félagið óx og dafnaði og festi sig í sessi sem menningarafl í bænum. En vágestur lá í leynum og var tekinn að lokka til sín sálirnar í Kópavogi ekki síður en öðrum hornum landsins – og raunar miklu heldur því á einmitt þessu horni – suðvesturhorninu – urðu ítökin hvað mest framan af. Landsmenn fengu sem sagt nýja dægradvöl að gleyma sér yfir og völd og áhrif hennar fóru dagvaxandi; þetta fyrirbrigði fékk með tíð og tíma nafngiftina „sjónvarp“. Fyrstu kynni flestra af sjónvarpinu voru af kanasjónvarpi sem varpaði efni til þjakaðra dáta í Keflavíkurherstöðinni en ráðsnjallir menn í nágrenninu fundu brátt út að þeir gátu einnig náð útsendingunum með réttum búnaði, og viðtækjum fjölgaði hratt og örugglega í stofum landsmanna. Innan skamms var farið að ræða um íslenska sjónvarpsstöð (sem hóf útsendingar árið 1966) svo öllum mátti vera ljóst að sjónvarpið var komið til að vera. Margir lágu ekki á þeirri skoðun að með tilkomu þess þyrfti enginn að láta sér detta í hug að dagar áhugaleikfélaga yrðu öllu lengri því bæði væru áhorfendur og leikendur límdir við „imbann“ og því hægt að segja þetta orðið gott. Leikfélag Kópavog lét samt sem áður ekki deigan síga en frumsýndi í nóvember „sakamálagamanleikinn“ Fínt fólk eftir breska leikskáldið og leikarann Peter Coke í leikstjórn Gísla Alfreðssonar. Hugsanlega sátu Kópavogsbúar nú bergnumdir af sjónvarpsblámanum og hreyfðu sig ekki frá viðtækjum sínum. Að minnsta kosti gat Sigurður A. Magnússon þess sérstaklega í leikdómi að þunnskipað hefði verið í salnum þegar hann lagði leið sína í leikhús Kópavogsmanna:

„Það var fámennt í Kópavogsbíói kvöldið sem ég sá leikritið, og má nærri geta að leikendum hefur verið róðurinn allþungur við heldur daufar undirtektir áhorfenda, þó stundum væri hlegið hressilega.“

Auðvitað væri rangt að kenna sjónvarpinu um allt sem aflaga fór í almennu félagsstarfi og starfsemi Leikfélags Kópavogs þar á meðal. En því varð ekki í móti mælt að nú voru nýir tímar gegnir í garð með harðri samkeppni á dægurmarkaði. Henni þurfti að mæta með einhverjum hætti en ella leggja árar í bát.

Krónur og aurar

Eins og nærri má geta voru liðsmenn Leikfélags Kópavogs hreint ekki á þeim buxum að leggja leggja upp laupana þótt sjónvarp og fleira sækti að. Vörn var snúið í sókn og segja má að vissum hápunkti hafi verið náð árið 1972 – en að vísu með óvæntum endalokum.

Tíu ára afmæli félagsins var fagnað með glæsibrag á afmælishátíð hinn 25. febrúar 1967 og áfangans var ennfremur minnst með hátíðarsýningu á Lénharði fógeta en þar gerðist það meðal annars á einni sýningunni að sviðsmönnum láðist að skipta um litskuggamynd á milli atriða og þegar Björn Einarsson, sem fór með hlutverk Lénharðs og hafði einskis orðið var, sagði ábúðarmikill og benti á litmynd af Heklu: „Ingólfsfjall er tígulegt“, enda verður sýningin að halda áfram hvað sem tautar og raular. Hið sama mátti auðvitað segja um starfsemi félagsins sem hafði stimplað sig inn sem einn hornsteinn í menningar- og félagsstarfi ört vaxandi bæjarfélags og raunar leikhúslífi höfuðborgarsvæðisins.

Góðu fréttirnar voru þær að ýmsar ytri ráðstafanir urðu til þess að létta fjárhagslegan róður starfseminnar. Leikfélagið hafði komist á fjárlög alþingis strax árið 1958 og hlaut eftir það 8.000 kr. styrk árlega úr ríkissjóði. Snemma á sjöunda áratugnum tóku landsfeður á þingi að gefa áhugaleikstarfi aukinn gaum og settu loks árið 1965 sérstök lög um þetta starf; í því fólst m.a. aukinn fjárstuðningur. Ekki munaði minna um að um sama leyti var söluskattur felldur af leikhúsmiðum sem var auðvitað hraustlega kjarabót fyrir félög á borð við LK. Loks er þess að geta að í tilefni af 10 ára afmæli Kópavogsbæjar árið 1965 var sett á fót Lista- og menningarráð til að efla og styðja lista- og menningarstarf í Kópavogi. Undir það féll starfsemi Leikfélags Kópavogs auðvitað og átti ráðið iðulega eftir að leggjast hraustlega á árarnar með félaginu – með fjárframlagi eða stuðningi í annarri mynd.

ettansjalfurEftir því sem leið á sjöunda áratuginn hertist til muna samkeppni bíóhúsanna um bíógestina og Kópavogsbíó – kvikmyndarekstur Kópavogsbæjar – fór ekki varhluta af því. Það var ekki sérlega ákjósanlegt fyrir þróttmikið leikstarf Leikfélags Kópavogs því leikararnir máttu halda í sér þar til bíósýningum var lokið áður en þeir gátu tekið til við æfingarnar. Orð Gísla J. Ástþórssonar, höfundar leikritsins Ungfrú Éttann sjálfur sem félagið færði á svið árið 1969, lýsa bæði undrun og aðdáun, hann sagði:

„… og ég get nefnt sem dæmi um áhuga þeirra [leikara LK], að síðasta sprettinn fyrir frumsýningu var að minnsta kosti tvisvar æft frá miðnætti til morguns, og svo átti þetta fólk að mæta til vinnu klukkutíma síðar. Það er varið í svona fólk, gott og hressandi að kynnast því.“

Þessi hörðu kjör sem félagsmönnum voru búin virðast þó fráleitt koma niður á móralnum og þegar tíðindamaður dagsblað kom í heimsókn ári síðar til að fylgjast með æfingu á Öldum séra Jakobs Jónssonar blasti eftirfarandi við:

„Það var kátt á hjalla í kaffistofunni, tertur og pönnukökur á boðstólum með kaffinu og engin þreytumerki að sjá á fólkinu þótt klukkan sýndi eina stund yfir miðnætti.“

Ýmsum brögðum var beitt til að laða að sýningargesti og meðal annars var iðulega lofað í auglýsingum að strætisvagnar biðu við útganginn í sýningarlok og flyttu gesti niður á Lækjartorg enda mun Kópavogsbíó fráleitt hafa verið álitið í alfaraleið á þeim árum og því vissara að benda leikhúsgestum úr höfuðborginni á að þeir ættu afturkvæmt af sýningum hjá félaginu. Og hvort sem það var nú strætóferðunum að þakka eða ágæti sýninganna hittu margar uppfærslu félagsins í mark á þessum árum. Þannig var þess getið í umsögn um sýningu félagsins á Óboðnum gesti eftir félagsmanninn Svein Halldórsson árið 1966 að undirtektir á frumsýningu hafi verið „frábærlega góðar“. „Dynjandi lófaklapp kvað við, ekki aðeins í leikslok, heldur einnig öðru hverju alla sýninguna.“ Einnig mætti nefna gamanleikinn Sexurnar eftir Marc Camelotti sem dæmi um vinsæla uppfærslu en verkið var sýnt nærri 30 sinnum leikarið 1967–1968 og við góðan orðstír. Enn er þess að geta að Lína langsokkur sem félagið hafði fært upp árið 1960 var enn á fjölunum leikárið 1969–1970, nú í leikstjórn Brynju Benediktsdóttur en Guðrún Guðlaugsdóttir, síðar blaðamaður og rithöfundur, fór með hlutverk Línu. Reyndist dálæti íslenskra barna síst hafa dalað á þeim áratug sem liðinn var frá því að félagið sett söguna síðast upp. Uppfærslan hlaut með öðrum orðum einkar góðar viðtökur og var sýnd um heils árs skeið, frá í nóvember 1969 og fram í desember ári síðar, alls 56 sinnum.

Þegar litið er yfir verkefnaskrá félagsins sést glögglega að menn reyndu einatt að endurspegla samtímann í verkefnavali. Til dæmis má benda á að í barnaleikritinu Ó, amma Bína sem félagið færði upp vorið 1967 sagði frá tveimur „bítlabörnum“ sem lentu í kynlegum ævintýrum. Brátt fengu blómabörnin einnig sína sýningu.

Hárið

Brynja Benediktsdóttir var atkvæðamikill og ötull leikstjóri á þessum árum og hikaði ekki ekki við að feta nýtar brautir í verkefnavali og framsetningu. Hún hafði m.a. starfað með Leikfélagi Kópavogs þessi misserin, setti upp Höll í Svíþjóð eftir Francoise Sagan vorið 1969 og Línu langsokk þá um haustið. Haustið 1970 flaug fjaðralaust að sitthvað væri í bígerð, nefnilega að hópur ungra leikara væri að undirbúa sýningu á „hippíasöngleiknum Hair eða Hár í Glaumbæ“ og hljómsveitin Trúbrot léki undir. Um téðan söngleik sagði í blaðafregnum:

„Í rauninni er ekki hægt að tala um söguþráð í leiknum, heldur er í textanum vegið að skipulaginu og smáborgaralegum hugsunarhætti, á hinn bóginn tekin jákvæð afstaða til frjálsra ásta, kynlífs og nautnalyfja. Leikararnir afklæðast á sviðinu og reykja forboðna vindlinga … skemmta sem sagt sjálfum sér og áhorfendum með hljóðfæraleik, söng og dansi.“

Bráðlega kom í ljós að það var Leikfélag Kópavogs sem stóð að baki, félagið hafði víst auðgast svona hressilega af Línu langsokk og varið ágóðanum til að kaupa sýningarréttinn á þessum heimsfræga söngleik. Brynja Benediktsdóttir hélt um taumana en raunar sá hin geysivinsæla hljómsveit Náttúra um undirleikinn en ekki Trúbrot eins og fyrstu fregnir hermdu. Þá hafði Kristján Árnason skáld þýtt leikinn en Sigurður Rúnar Jónsson, Diddi fiðla, stýrði tónlistarflutningnum sem var vandasamt embætti eins og geta má nærri.

Helstu hippíar landsins gíruðu sig upp í að komast loks á þennan rómaða söngleik sem hafði slegið í gegn á Broadway í Ameríku árið 1968 og síðan lagt undir sig hin ýmsu horn hins vestræna heims. Og nú virtist röðin sem sé komin að Íslandi og Reykjavík að komast í stælbandalag heimsins. Ekkert bólaði þó á frumsýningu um hríð – leikfélagið frumsýndi að vísu Öldur sr. Jakobs og gamanleikinn Annað hvert kvöld eftir Francois Campaux sem Loftur Guðmundsson hafði þýtt og staðfært – hvorugt kom þó alveg í staðinn fyrir gegnheilan hippíasöngleik.

Vorið 1971 var biðin loks á enda þegar Hárið var frumsýnt í Glaumbæ með pompi og prakt. Þegar til átti að taka töldu leikstjóri og leikhópurinn húsnæðið í Kópavogsbíó ekki henta og voru þar á ofan komin með kappnóg af því að fá aldrei að hafa æfingar á kristilegum tíma í húsinu vegna bíóreksturs. Niðurstaðan var því sú að flutt var niður að Reykjavíkurtjörn og sýnt í Glaumbæ þar sem nú er Listasafn Íslands, en raunar ekki fyrr en leikstjóri og aðstandendur sýningarinnar og stjórn leikfélagsins höfðu rifist og skammast um hríð.

Skemmst frá því að segja að sýningin sló í gegn og varð umsvifalaust viðburður sem allir á tilteknu aldursbili þurftu að hafa séð og lifað til að teljast samræðuhæfir.

Leikdómarar hlóðu sýninguna lofi, „Það er samvalinn þjálfaður leikhópur sem bar Hárið fram til sigurs,“ sagði Vísir og Þjóðviljinn hrósaði fyrir „lofsverða framtaksemi og djörfung Leikfélags Kópavogs.“

Sýnt var fjögur kvöld í viku fyrir stappfullu húsi og haldið áfram eftir sumarleyfi fram í nóvember. Sýningum lauk loks í nóvemberlok, þótt enn væru langar biðraðir eftir miðum, en hinn 4. desember 1971, að loknum dansleik, kom upp eldur í Glaumbæ og varð brátt að samfelldu eldhaf. Þar brann ýmislegt úr sýningunni, auk persónulegra muna leikaranna, og öll hljóðfæri hljómsveitarinnar Náttúru – auk alls annars.

Glaðvær hópur ungs fólks fór með hlutverkin í sýningunni, margir leikaranna stigu þar sín fyrstu skref og áttu sumir hverjir eftir að láta að sér kveða á ýmsum sviðum. Sumir þeir sem tóku voru að sönnu grónir félagar í leikfélaginu en satt að segja voru þeir miklu færri en hinir. Tilfærslan úr heimahögunum niður í Glaumbæ var að ýmsu leyti skiljanleg en sleit óneitanlega tengslin við Kópavog. Með talsverðum rétti mátti því segja að tengsl leikfélagins við sýninguna Hárið væru næsta losaraleg. Og eins og oft vill verða henti það nú að helsti sigur félagsins var því að falli – um stundarsakir að minnsta kosti. Stjórnendur sýningarinnar og stjórn félagsins deildu, og tekist var á innan leikhópsins. Velgengni er oft erfitt að höndla.

Eftir að sýningum lauk á Hárinu var trommað upp með endursýningu á Músagildrunni sem félagið hafði fært á svið árið 1960 – „langúldin kássa“ kallaði krítíker nokkur þetta framlag LK. Eftir það lagðist starfið af að mestu um nokkurt skeið. Það var kominn þreyta í gamla kjarnann eftir djöfulganginn kringum Hárið og enginn í sjónmáli til að taka við. Nú gerðist því kyrrt um hríð.