Nú leikárið er liðið í aldanna skaut, og aldrei það kemur tilbaka. Þetta leikár sem nú er að líða verður líklega helst í minnum haft fyrir tvennar sakir. Þetta leikár var einungis ein leiksýning frumsýnd, Börn Mánans, sem unglingarnir okkar settu upp af miklum myndugleik en það markverðasta er þó, að við eignuðumst loks okkar eigið leikhús, Leikhúsið við Funalind. Ýmislegt annað markvert gerðist þó einnig á þessu 51. leikári leikfélagsins.
Sjö félagsmenn okkar sóttu Leiklistarskóla BÍL síðastliðið sumar (2007) og sóttu þar ýmis námskeið. Álíka margir munu sækja skólann nú í ár.
Þann 20. júlí á síðasta ári skrifaði Örn Alexandersson, gjaldkeri félagsins, undir kaupsamning á Funalind 2. Áður hafði stjórn félagsins staðið í ströngum samningaviðræðum við eiganda Funalindarinnar og Kópavogsbæ svo að draumur okkar gæti orðið að veruleika. Við sættumst á kaupverð (48 milljónir kr.) og svo var samið og að lokum skrifað undir.
Á sama tíma voru nokkrir félagar úr Leikfélagi Kópavogs á hinni árlegu alþjóðlegu leiklistarhátíð IATA í Suður-Kóreu þar sem LK ásamt leikfélaginu Hugleik sýndi Memento Mori. Var það að líkindum lokasýning á því verki sem frumsýnt var árið 2004 og hefur því lifað lengur en flest. Kóreuferðin tókst afar vel og var okkur til sóma á listasviðinu. Hún var einnig mjög eftirminnileg fyrir margar aðrar sakir ekki síst veðurfarið enda afar heitt og rakt í Suður-Kóreu á þessum árstíma.
Um leið og við fengum húsnæðið í Funalind í hendur í ágúst var fenginn arkitekt til að vera okkur innan handar við hönnun og framkvæmd á breytingum sem voru óumflýjanlegar til að Funalindin yrði að leikhúsi. Arkitektinn er mörgum að góðu kunnur enda „gamall“ LK-félagi, Þorleifur Eggertsson að nafni. Hann teiknaði og teiknaði en aðrir gerðu lítið annað fyrst um sinn en að rífa niður helming af millilofti og veggi og þvíumlíkt.
Félagið sendi einþáttunginn Jesús getinn á stuttverkahátíðina Margt smátt í Borgarleikhúsinu í september. Sýningin tókst vel sem og hátíðin sem slík.
Rekstrar- og samstarfssamningur við Kópavogsbæ var undirritaður þann 3. nóvember á síðasta ári. Samningur þessi er mikil bót frá gamla samningnum því styrkur Kópavogsbæjar til leikfélagsins eykst til muna og uppfyllingarákvæði samningsins voru einfölduð.
Í október var farið af stað með námskeið í leikhússporti og hittist hópurinn í leikhúsinu einu sinni í viku frameftir vetri. Námskeiðið sem var í umsjón Gísla Björns Heimissonar var vel sótt og afar vel lukkað.
Í desember var haldin félagsskemmtun þar sem húsnæðið var formlega kynnt fyrir félgasmönnum. Veglegar veitingar voru á boðstólum í litla leikhúsinu okkar sem ekki líktist þó beint leikhúsi á þeim tímapunkti.
Í október hóf unglingadeildin starfsemi að nýju undir handleiðslu Sigurþórs Alberts Heimissonar. Þau höfðu aðsetur í Smáraskóla fram að áramótum en komu síðan í Funalindina þegar þau byrjuðu að æfa Börn Mánans eftir áramót. Þátttakendur á unglinganámskeiðinu voru mest 18 en fækkaði nokkuð þegar líða tók á námskeiðið og á endanum voru 14 sem tóku þátt í sýningunni. Þrátt fyrir vægast sagt ómögulegar aðstæður í Funalind sem var undirlögð af smíðavinnu með tilheyrandi hávaða auk þess sem húsið var nær hitalaust í mestu frostunum tókst að koma sýningunni á fjalirnar að lokum. Unglingadeildin sýndi mikið þolgæði í sinni vinnu. Sýningar á Börnum Mánans urðu þrjár og tókust þær ágætlega í höndum þessara ungu leikara.
Við fórum af stað í framkvæmdir á húsinu með miklum hug og vonuðumst til að standa straum af kostnaði við breytingar með styrkjum frá vinveittum aðilum hér í bæ, en þá skall allt í lás, allir fóru að halda að sér höndum í kreppunni og við þurftum að leita til bæjarins fyrir stuðning í leikhúsbyggingunni. Kópavogsbær hefur brugðist vel við og veitt okkur styrk sem gera okkur kleift að halda áfram uppbyggingunni. Þá studdi Lista- og menningarráð okkur dyggilega og meðal annars fengum við styrk til að rita sögu félagsins og réðum við Bjarna Guðmarsson til að stýra því verki. Má búast við afrakstrinum nú á haustdögum þó ekki sé ákveðið í hvernig formi það verður.
Listræni þátturinn hefur eðlilega setið aðeins á hakanum á liðnu leikári af ofantöldum sökum og aðeins 1 leikrit frumflutt á vegum félagsins, en þó var byrjað að æfa upp næstu uppsetningu leikfélagsins sem verður opnunarsýning í nýju leikhúsi. Þetta leikár sem nú er lokið einkenndist af framkvæmdum við nýtt húsnæði. Gríðarlega mikið og fórnfúst starf hefur verið innt af hendi enda hefur nánast öll vinna verið unnin í sjálfboðavinnu. Nóg er þó enn eftir að starfa og margar hendur og góðan stuðning þarf til ef okkur á að takast það ætlunarverk að opna nýtt leikhús í september með frumsýningu á nýju verki byggðu á Skugga-Sveini.
Við þetta má svo bæta að samstarfsýning okkar og Hugleiks, Bingó, var valin sem framlag Íslands á leiklistarhátíð NEATA í Riga í Lettlandi og verður sýnd þar í byrjun ágúst.
Þann 5. júní 2008
Fyrir hönd stjórnar Leikfélags Kópavogs
Gísli Björn Heimisson, formaður