Eitt merkilegasta leikár í sögu Leikfélagsins er nú að baki. Aðalverkefni nýrrar stjórnar sem tók við í júní 2008 var að ljúka framkvæmdum í húsnæðinu í Funalind 2 svo hægt væri að opna nýtt leikhús þá um haustið. Þó margt hefðoi verið framkvæmt á undanliðnum vetri var þó óravegur frá því að húsið væri farið að nálgast sýningarhæft ástand. Mesta vinnan til að svo mætti vera fór fram á tímabilinu frá júní 2008 fram að frumsýningu á Skugga-Sveini í október.
Margt varð til að tefja framkvæmdir og má þar meðal annars nefna að vegna skorts á geymslurými fór mikill tími í að færa leikmuni, búninga, tæki og aðrar lausaeignir félagsins á milli staða í húsinu til að hægt væri að vinna. Þegar tilteknum framkvæmdum var lokið í einu horni hófust flutningarnir að nýju svo hægt væri að vinna í því næsta. Svona gekk það fyrir sig nánast fram á síðasta dag og kostaði félaga mikinn tíma og orku. Einnig auðveldaði það ekki málið að síðustu vikurnar fyrir opnun var samhliða framkvæmdum verið að æfa upp opnunarsýninguna og eftir á að hyggja er með ólíkindum hve mikið þolgæði leikhópurinn sýndi við að æfa innan um timburafganga í sagi og gipsryki. Margir lögðu hönd á plóginn, sérstaklega á síðustu dögunum fyrir opnun og er þeim hér með þakkað fyrir sitt framlag.

Opnun og frumsýning
Sunnudaginn 19. október var Leikhúsið að Funalind 2 formlega opnað með frumsýningu á nýrri leikgerð SkuggaSveini, einu þekktasta klassíska verki íslenskra leikbókmennta. Eftir margra mánaða þrotlausa vinnu við að smíða nýtt leikhús í fyrrum verslunarhúsnæði rættist svo draumurinn þegar ný leikgerð félagsins á Skugga-Sveini í leikstjórn Ágústu Skúladóttur var frumsýnd við frábærar undirtektir áhorfenda. Það var sérlega ánægjulegt að í hópi þeirra voru flestir núlifandi stofnfélagar leikfélagsins. Einnig var við hæfi að fyrsta sýningin í nýju húsi skyldi vera í leikstjórn Ágústu Skúladóttur sem er orðinn sérlegur vinur félagsins eftir margar eftirminnilegar uppsetningar á undanförnum árum.
Skugga-Sveinn var frumsýndur eins og áður sagði í október og ekki er hægt annað en að vera stoltur af opnunarsýningu Leikhússins. Almenn ánægja virtist ríkja meðal áhorfenda með frumlega nálgun leikstjóra og leikhóps á þessari táknmynd íslenskrar leiklistar. Aðsókn var góð og sýningar urðu að lokum 19 talsins og áhorfendur losuðu um 1000 manns.

Námskeið og sýning Unglingadeildar
Í október hófst  námskeið fyrir unglingadeild félagsins. Anna Brynja Baldursdóttir var leiðbeinandi á námskeiðinu sem snerist um hópvinnuaðferðir í leikhúsi. 12 þátttakendur voru á námskeiðinu sem lauk á opnu húsi þar sem aðstandendur komu í heimsókn og sáu nokkur atriði sem hópurinn hafði unnið með.
EFtir áramót hófust æfingar hjá hópnum fyrir leiksýningu. Áfram var unnið í hópvinnu og umfjöllunarefnið var Facebook fyrirbærið. Anna Brynja leikstýrði og 11 leikarar tóku þátt í sýningunni “Viltu vera vinur minn á Facebook?” sem var frumsýnd í byrjun apríl. Sýnt var fimm sinnum við mjög góðar undirtektir og góða dóma þeirra sem sáu.

Rúi og Stúi
Í byrjun desember var ákveðið að setja upp barnaleikritið Rúa og Stúa. Hörður Sigurðarson tók að sér leikstjórn og æfingar hófust í febrúar. Á ýmsu gekk í leikhópnum og á endanum þurfti að skipta út 2 leikurum. Þá varð að gera hlé á æfingum í rúmlega mánaðartíma meðan Leikfélag MK var við æfingar í húsinu. Sýningin var loks frumsýnd í lok apríl sem var öllu seinna en upphaflega var stefnt að. Orsök þess var vera Leikfélags MK eins og áður sagði. Sýnt var 8 sinnum við þokkalega aðsókn þó lítð hefði verið lagt í kynningu og sölu. Stjórn hefur tekið þá ákvörðun að taka sýniguna upp að nýju í haust.
Teatersport
Gísli Björn Heimisson hélt úti teatersporthópi framan af vetri. Hópurinn hittist vikulega en þegar líða tók á fækkaði í honum og að lokum var hann settur á ís um óákveðinn tíma.
Haustverkefni 2009
Stjórn réði í vetur Vigdísi Jakobsdóttur til að æfa upp og leikstýra verkefni í hópvinnu sem ætlunin er að verði aðalverkefni félagsins á komandi hausti. Verkefninu var hleypt af stokkunum með vinnubúðum í maí þar sem Vigdís kynnti aðferðir sínar og hugmyndir og notaði um leið tækifærið til að skoða .æa meðlimi sem hafa hug á þátttöku. Hópurinn hittist þrisvar sinnum en hlé verður gert í sumar og þráðurinn tekinn upp í haust þegar endanlegur hópur verður valinn og æfingar hefjast.

Leikhúsið
Með nýja húsnæðinu opnuðust nýir möguleikar hjá félaginu í tekjuöflun með útleigu. Fjölmargir aðilar hafa nýtt sér aðstöðuna fyrir ýmis verkefni allt frá kvikmyndatökum til leiksýninga. Frá opnun hafa fimm leiksýningar utanakomandi aðila verið sýndar í húsinu, þar af þrjár sem voru æfðar upp á staðnum. Auk þess hafa ýmsir aðrir fengið inni fyrir smærri verkefni og uppákomur. Í október fékk Draumasmiðjan inni til æfinga og sýninga á verkinu Hvar er (K)lárus? Hópurinn sýndi 4 sinnum fyrir áramót. Möguleikhúsið sýndi eina sýningu á Aðventu í desember. Stoppleikhópurinn sýndi Bólu-Hjálmar tvisvar sinnum í febrúar og einu sinni í maí. Þá tók leikdeild Kvikmyndaskólans húsnæðið á leigu fyrra hluta maí æfinga og sýninga á spunaverki.
Leikfélag MK fékk inni í húsinu í febrúar og var þar við æfingar og sýningar í hartnær 7 vikur. Ekki er annað hægt að segja en að vera þeirra í Leikhúsinu og samskipti við Leikfélagið hafi gengið illa svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Stjórn LK hefur staðið í þeirri trú frá því undirritaður var rekstrarsamningur milli félagsins og bæjarins
Skvt. rekstrarsamningi LK og Kópavogsbæjar hefur MK rétt til að fá inni í húsinu í 3 vikur á ári. Í ljós kom að nokkrir starfsmenn bæjarins með bæjarritara í broddi fylkingar túlka áðurnefnt samningsákvæði á þann veg að MK eigi ekki aðeins rétt á að fá inni í húsinu í umræddan tíma heldur skuli vera þar án þess að greiða krónu í leigu. Er þá ekki einu sinni tekið tillit til fastakostnaðar við rekstur hússins, s.s. hita og rafmagn, rekstrarvörur og tækjanotkun svo eitthvað sé talið. Eftir fund með starfsmönnum bæjarins þar sem ýjað var að því að rekstrarsamningi yrði rift ef félagið gæfi ekki eftir var ákveðið að sækjast ekki frekar eftir leigu frá MK vegna veru þeirra í húsinu. Þá þegar var MK búð að vera í húsinu lengur en þær 3 vikur sem kveðið var á um í samingnum.
Stjórn Leikfélagsins fór ítarlega yfir málið og var einhuga í þeirri afstöðu sinni að réttlátt sværi að Leikfélag MK greiddi hóflega leigu fyrir aðstöðuna. Í ljósi ósveigjanlegrar afstöðu fulltrúa bæjarins var hinsvegar ljóst að ekki væri skynsamlegt að sækja málið frekar og ekki kom heldur til greina að úthýsa sýningunni þó að LK væri búið að uppfylla sinn hluta af samningnum.
Við fyrrgreindar deilur bættust síðan miklir erfiðleikar vegna vægast sagt slæmrar umgengni leikhópsins í húsinu. Skemmdir viru unnar á húsnæði og innanstokksmunum og verður MK gert að greiða fyrir þær skemmdir.

Önnur starfsemi

Framkvæmdir
Eftir opnun Leikhússins í október síðastliðnum dró eins og vænta mátti mjög úr framkvæmdum í húsinu. Þó hefur ýmislegt verið gert og er þar helst að nefna að komið var upp brunaviðvörunarkerfi sem tengt er við stjórnstöð Securitas. Sveinn Ásbjörnsson

Næstu verkefni
Hópvinna með Vigdísi Jakobsdóttur
Sögusýning á Kópavogsdögum