Öðru starfsári Leikfélagsins í Leikhúsinu við Funalind er nú að ljúka. Annar bragur hefur verið á starfseminni nú en á fyrsta árinu, þegar leiksýningar voru settar upp nánast samhliða því sem húsið var smíðað. Leikhúsið okkar er enn nokkuð frá því að vera fullbúið en það mjakast þó hægt fari. Eftir blóð, svita og tár fyrsta leikárið hafa framkvæmdir verið með rólegra móti í vetur en þó hefur margt verið unnið og húsið færist sífellt nær því að vera eins og við hugsuðum það í upphafi. Stjórn félagsins hefur þurft að sýna ráðdeild og hagsýni með það litla fjármagn sem við höfum úr að spila og sett eins mikla fjármuni í framkvæmdir og unnt er án þess að það komi um of niður á verkefnum leikársins.
Fyrsta verkefni leikársins var að taka upp að nýju sýningar á Rúa og Stúa sem sýndir voru vorið 2009 við ágætar undirtektir þrátt fyrir að lítið væri lagt í kynningu. Í tengslum við sýninguna var farið af stað með samstarf við Kópavogsdeild Rauða krossins um kynningu á sýningunni. Kópavogsdeildin hafði samband við okkur í maí 2009 og viðraði hugmyndir um samstarf og ákveðið var að láta reyna á það um haustið með því að þau sæju um kynningu á sýningunni í leik- og grunnskólum og fengju í staðinn þriðjung af innkomu. Því miður verður að segjast að fyrirkomulagið gafst ekki nógu vel. Kynningin fólst aðallega í að dreifa miðum í skólana en eftir á að hyggja virtist þurfa meiri og betri eftirfylgni. Við höfum ekki gefið mögulegt samstarf við Kópavogsdeildina upp á bátinn en þurfum greinilega að endurskoða fyrirkomulagið.
Í lok október hófust æfingar á nafnlausu hópvinnuverki undir stjórn Vigdísar Jakobsdóttur. Reyndar fór Vigdís af stað með hóp þá um vorið og kjarninn úr þeim hópi hélt síðan áfram um haustið. Lagt var af stað í vinnuna með autt blað og óljósa hugmynd um hið algenga fyrirbæri plastpokann. Æfingar stóðu með hléum fram yfir áramót og verkið var frumsýnt 15. janúar og hafði þá hlotið heitið Umbúðalaust. Ljóst var að atburðir síðustu missera í þjóðfélaginu voru töluverður innblástur fyrir hópinn en þó var ekki verið að fjalla um þá nema á abstrakt máta. Sýningin vakti allnokkra athygli, ekki síst fyrir frumlega umgjörð og varð síðar fyrir valinu sem opnunarsýning leiklistarhátíðar NEATA sem haldin verður í hinu nýja Menningarhúsi Akureyrar Hofi, í ágúst 2010.
Unglingadeild félagsins hóf æfingar eftir áramót undir stjórn Guðmundar L. Þorvaldssonar. Var þar um frumsamið hópvinnuverkefni að ræða og þemað sótt í miklar vinsældir blóðsugumynda og -bóka meðal unglinga. Útkoman varð frumleg sýning sem hlaut nafnið Blóðsystur og fjallaði á skemmtilegan hátt um ástir og örlög blóðsuga og blóðsugubana. Sýningar urðu því miður aðeins 3 talsins vegna anna þátttakenda en var vel tekið af þeim sem sáu.
Þá eru ótaldir tveir frumsamdir leikþættir sem sýndir voru í lok maí og nefndust annarsvegar Í mannsorpinu og hinsvegar Verkið. Voru þeir heimasmíðaðir að öllu leyti og verða væntanlega sýndir aftur á næsta ári.
Eitthvað hefur verið um innanfélagsuppákomur og má þar helst telja vel heppnað Stjörnuljósakvöld sem haldið var milli jóla og nýárs og Fjáröflunarbingó fyrir NEATA leiklistarhátíðina á Akureyri í lok maí.
Á síðasta ári voru einnig gerðar breytingar á skipulagi félagatals. Ákveðið var að senda greiðsluseðil í heimabanka og var lögð mikil vinna í að útbúa lista með núverandi og eldri félagsmönnum. Heimtur voru allgóðar og reyndar mun betri en verið hefur undanfarin ár. Eru nú um 60 skráðir félagar í Leikfélaginu. Þá var vefurinn okkar uppfærður og bætt við hann möguleikum á að halda utan um póstlista og senda út fréttabréf. Tæplega 200 manns eru skráðir á póstlista og fá fréttabréf félagsins. Útsend fréttabréf leikársins eru 14 talsins og eru mjög hjálpleg til að halda sambandi við félagsmenn og aðra sem áhuga hafa á starfinu.
Ýmsir hópar hafa nýtt sér aðstöðuna í Leikhúsinu á liðnu leikári. Má þar fyrst nefna Götuleikhúsið sem er á vegum Vinnuskóla Kópavogs og hefur aðstöðu í húsinu á tímabilinu júní-júlí ár hvert samkvæmt samningi félagsins við bæinn. Samstarfið við Götuleikhúsið hefur gengið ágætlega enda hafa báðir aðilar lagt sig fram um að allt gangi vel fyrir sig.
Þá er Kvikmyndaskólinn að verða fastur leigjandi tvisvar á ári og nýtir húsið til uppsetningar á útskriftarsýningu leiklistarbrautar sinnar. Á leikárinu setti Kvikmyndaskólinn upp leiksýningar í húsinu í desember 2009 og aftur í maí 2010. Eftir ákveðin vandræði í fyrsta leikárinu hefur samstarfið gengið vel og báðir aðilar sáttir við sitt.
Því miður er ekki sömu sögu að segja af aðkomu Leikfélags Nemendafélags MK sem hefur einnig samkvæmt samningi aðgang að húsinu 3 vikur á ári. Eins og kom fram í skýrslu stjórnar í fyrra var vera LNMK í Leikhúsinu ekki til fyrirmyndar og því miður hefur orðið þar framhald á og frekar sigið á ógæfuhliðina en hitt. Ekki verður hér talið upp allt sem upp á kom meðan á veru þeirra stóð í húsinu en stjórn hefur nú sent forsvarsmönnum í MK bréf þar sem við bendum á að LNMK fái ekki inni í Leikhúsinu að nýju nema umtalsverðar breytingar verði á fyrirkomulagi. Óskað var eftir að bréfinu yrði svarað fyrir 15. júní ella litum við svo á að LNMK hygðist ekki nýta sér aðstöðu í Leikhúsinu á næsta leikári. Svar hefur ekki borist þegar þetta er ritað.
Þess má einnig geta að Tónlistarskólinn Tónsalir hefur komið að máli við okkur um möguleika á samstarfi og í kjölfar þeirra viðræðna hélt skólinn útskriftartónleika hér í Leikhúsinu í lok maí. Möguleikar á samstarfi verða skoðaðir frekar á næsta leikári.
Þá hafa ýmir einstaklingar fengið inni í húsinu til æfinga, kvikmyndagerðar og annarra hluta í styttri tíma.
Annað leikár okkar í nýju leikhúsi er að baki. Félagið er að máta sig við nýjar aðstæður jafnframt því sem Leikhúsið tekur á sig meiri mynd. Keyptur var á leikárinu stýribúnaður fyrir ljós sem vonandi auðveldar vinnuna við okkar verkefni. Við munum þurfa að fjárfesta enn meir á því sviði og einnig er orðið afar brýnt að koma upp ásættanlegu hljóðkerfi í húsinu til framtíðar. Tækjabúnaður hússins er ekki bara mikilvægur okkur heldur skiptir miklu máli í möguleikum til útleigu með tilheyrandi tekjum.
Hvað innra starf félagsins varðar þarf að leggja áherslu á að stækka kjarnann í félaginu og tryggja æskilega nýliðun. Þá bíður okkar einnig mikið verk í að kynna félagið og Leikhúsið sem slíkt fyrir bæjarbúum. Stjórn hefur rætt yfir ýmsar leiðir í því skyni og vonandi verður hægt að hrinda þeim í framkvæmd á næstu misserum.
Kópavogi 9. júní 2010
Fyrir hönd stjórnar Leikfélags Kópavogs
Hörður Sigurðarson