Leikárið er nú á enda og margt hefur á dagana drifið.
Átta félagsmenn sóttu Leiklistarskóla BÍL á Húnavöllum í júní á síðasta ári á námskeiðum í leiklist, leikstjórn og leikritun. Lítur út fyrir að svipaður fjöldi verði í skólanum í ár. Félagið styrkir félagsmenn að hluta í námið enda teljum við að það sé félaginu í hag að auðvelda félagsmönnum slíkt.
Töluverðar breytingar voru gerðar á starfsemi yngri félagsmanna. Eins og undanfarin ár rákum við unglingadeild fyrir áramót en þó voru gerðar nokkrar breytingar á fyrirkomulagi. Í stað þéttrar dagskrár í styttri tíma var ákveðið að lengja tímabilið og bjóða námskeið einu sinni í viku, 2 tíma í senn í 10 vikur samtals. Að námskeiði afloknu var unnið þéttar í 2 vikur til að koma upp leiksýningu sem sá dagsins ljós í lok nóvember undir heitinu Kemurr’ ádeit? Sýningin lukkaðist vel og var sýnd þrisvar sinnum.
Þar með er þó ekki sagan öll sögð því stjórn ákvað að bjóða einnig upp á námskeið fyrir 11-12 ára börn. Fyrirkomulagið var svipað og hjá þeim eldri, þ.e. einn tími á viku í 10 vikur en þó aðeins 1 klst. í senn. Í síðasta tíma var foreldrum boðið að sjá afrakstur námskeiðsins og gerðu góðan róm að. Eins og undanfarin ár sá Ástbjörg Rut Jónsdóttir um kennslu og leikstjórn.
Ætlunin var að bjóða upp á byrjendanámskeið fyrir leikara eins og undanfarin ár en nú brá svo við að aðsókn var ekki næg og því ákveðið að fresta námskeiði fram yfir áramót. Uppsetningu leikdagskrár var þess í stað flýtt og voru æfðir upp þrír leikþættir undir stjórn Hrundar Ólafsdóttur, Arnar Alexanderssonar og Harðar Sigurðarsonar. Þættirnir voru frumsýndir 1. október undir samheitinu Mixtúra. Meðal þáttakenda var fólk sem sótt hafði byrjendanámskeið fyrr um vorið.
Sýnt var þrisvar sinnum.
Bryddað var upp á nýjung í september þegar Hörður Sigurðarson hélt fyrirlestur um sögu leiklistar. Fámennt var en viðstaddir lýstu ánægju með framtakið og töldu sig nokkru fróðari eftir.
Síðsumars samdi félagið við Rúnar Guðbrandsson um leikstjórn á sýningu í fullri lengd sem frumsýnd skyldi eftir áramót. Formaður og Rúnar lögðust í leit að hentugu verkefni og voru gefnar þær forsendur að velja klassískt verk með áherslu á krefjandi kvenhlutverk. Haldnar voru leiksmiðjur í október og nóvember með áhugasömum og á endanum var ákveðið að setja upp Þrjár systur eftir Anton Tsjekhov. Æfingar hófust seinnipart nóvember en gert var hlé yfir hátíðarnar. Þráðurinn var tekinn upp strax eftir áramót og stífar æfingar voru til 29. janúar þegar frumsýnt var.
Samdóma álit er að afar vel hafi tekist til við uppsetninguna á öllum póstum. Leikstjórn, leikur, leikmynd, búningar og tæknivinna var framúrskarandi og áhorfendur notuðu stór orð til að lýsa ánægju sinni. Sautján leikarar tóku þátt í sýningunni. Fagmennska á öllum sviðum einkenndi Þrjár systur og félagið getur verið afar stolt af niðurstöðunni. Sýndar voru 9 sýningar og voru flestar fyrir fullu húsi.
Að venju hélt félagið svo sitt árlega Stjörnuljósakvöld í kringum afmæli félagsins sem er 5. janúar. Á dagskrá var gamanþátturinn Kirsuberjasysturnar þar sem ögn var skopast að Tsjekhov. Einnig steig Leikhúsbandið á svið og flutti lög við góðar undirtektir.
Byrjendanámskeið sem frestað hafði verið í haust hófst loks í byrjun febrúar. Aðsókn var mikil og um tíma stóð til að halda annað námskeið í kjölfarið til að koma til móts við hana en á endanum varð ekki úr því. Átta manns sóttu námskeiðið sem gekk vel og hefur þegar skilað nýju fólki á svið hjá félaginu.
Samkvæmt venju fékk Leikfélag MK leikhúsið til afnota á leikárinu, að þessu sinni í mars. Á ýmsu hefur gengið í gegnum árin meðan á veru þeirra í húsinu hefur staðið en nú tók steininn úr. Hægt væri að skrifa langan pistil um vandamálin sem upp komu en hér verður látið nægja að nefna að írekaðar kvartanir bárust frá nágrönnum okkar í Funalindinni vegna hávaða um nætur, formaður leit við í húsinu einn morguninn og var þá húsið ólæst og öll ljós kveikt og við nánari eftirgrennslan kom í ljós að þannig hafði það verið síðan kvöldið áður. Auk þess kom í ljós að brunakerfi hafði verið tekið úr sambandi og var sambandslaust svo dögum skipti. Ótal önnur atriði mætti telja en verður það þó ekki gert hér. Formaður hafði samband við skólameistara MK sem mun aftur hafa haft samband við hópinn en það dugði ekki nema í stuttan tíma þar til aftur fór að síga á ógæfuhliðina. Stjórn hefur rætt málið og samþykkt að Leikfélag MK muni ekki fá aðstöðu í húsinu á næsta leikári. Því hefur verið komið á framfæri við skólameistara en ekki hefur borist svar vegna þessa. Þessari ákvörðun verður því aðeins breytt að gagngerar breytingar verði á skipulaginu og er fyrsta krafan sú að skýrt verði kveðið á um ábyrgð á veru hópsins í húsinu og að fullorðinn starfsmaður skólans verði skipaður til að hafa umsjón með og ábyrgð á veru þeirra í Leikhúsinu.
Æfingar hófust í byrjun apríl á leikdagskrá sem frumsýnd var í lok maí undir heitinuVorverkin. Þrír leikþættir voru sýndir; Úlfur í ömmugæru eftir Guðmund L. Þorvaldsson í leikstjórn hans, Strikið eftir Pál J. Árdal í leikstjórn Arnar Alexanderssonar og Bóleró eftir David Ives í leikstjórn Harðar Sigurðarsonar.
Allnokkuð var framkvæmt í húsinu á árinu og er þar helst að nefna að rafmagnsmál voru loks tekin almennilega í gegn enda hafa þau verið í ólestri frá opnun hússins. Þessar framkvæmdir voru okkur dýrari en upphaflega var áætlað en bráðnauðsynlegar og eru nú í mun betra horfi. Enn er ýmislegt eftir í þessum málum og mun ný stjórn ákveða framkvæmdir í samræmi við fjárhag.Við rafmagnsvinnuna kom í ljós slæmur leki í þaki andyris.Var ekki um annað að ræða en fá hann lagaðan strax og bættust þar við óvænt útgjöld. Ótalið er síðan að milli jóla og nýárs kom saman lítill en öflugur hópur og smíðaði ljósabrú framan á tæknibúrið.Var sú framkvæmd mikil búbót fyrir ljósahönnuði og sparar mikinn tíma og pening.
Áfram hefur verið haldið í tækjakaupum fyrir húsið og keyptir voru nokkrir ljóskastarar auk þess sem fest voru kaup á hljóðkorti og fjórum hátölurum. Leikhúsið er því enn betur tækjum búið en búast má við að enn verði haldið áfram að bæta tækjakostinn þó líklega megi hægja ögn á í þeim efnum.
Ýmsir aðilar leigðu aðstöðuna í leikhúsinu og er þar helst að nefna vini okkar hjá Kvikmyndaskólanum sem æfðu upp leiksýningar í desember og svo aftur í maí. Í ágúst voru haldnir tónleikar og flutt tónlist eftir Helga Rafn Ingvarsson sem hefur komið við sögu hjá leikfélaginu. Í desember var einnig haldin danssýning i húsinu. Þá sýndi Hlutverkasetur tvisvar í húsinu og var seinni sýningin liður í Kópavogsdögum í maí. Þá er von á Waldorskólanum sem hyggst hafa nemendasýningu í byrjun júní. Leikhúsið er orðið nokkuð eftirsótt enda er aðstaðan sífellt að batna.
Formaður sótti aðalfund Bandalags íslenskra leikfélaga í Vestmannaeyjum í byrjun maí. Helsta mál á dagskrá var bág fjárhagsstaða hreyfingarinnar. Félagið fékk sérstakar þakkir fyrir 150.000 kr. styrk sem það veitti til Þjónustumiðstöðvarinnar til að hægt væri að ná endum saman. Það er skoðun okkar að áhugafélögunum sé það brýn nauðsyn að viðhalda rekstri skrifstofu BÍL með sómasamlegum hætti.

Fyrir hönd stjórnar LK Hörður Sigurðarson