Leikárið byrjaði með látum en ákveðið var á vordögum 2018 á setja upp nýjan og spennandi farsa. Leikárið eftir áramót var heldur rólegra, en starfsemin fjölbreytt og fastir liðir á sínum stað.

Framkvæmdastjóri hússins

Það fyrirkomulag að hafa framkvæmdastjóra leikhússins hefur reynst það vel að stjórn ákvað að framlengja samningnum þriðja árið í röð. Framkvæmdastjóri sér um það sem viðkemur húsinu sjálfu og samskipti við þá aðila og hópa sem fá inni í Leikhúsinu. Að öllum líkindum er þetta fyrirkomulag komið til að vera.

Framkvæmdir innanhúss

Mikið var rætt um að fara í framkvæmdir innanhúss en minna gert, enda nýbúið að taka vel í gegn á neðri hæð hússins. Þetta virðist vera verkefnið endalausa. Draumurinn er að ráðast í framkvæmdir í leikararými á efri hæðinni. Skoðaðar voru gamlar teikningar af skipulagi rýmisins og uppi eru hugmyndir að betrumbæta aðstöðuna þar á næstunni.

Götuleikhúsið

Götuleikhúsinu býðst aðstaða í Leikhúsinu í júní og júlí. Sem fyrr var umgengni til fyrirmyndar og engin vandamál komu upp

Farsinn Tom, Dick og Harry

Í lok ágúst hófst samlestur á farsanum Tom, Dick og Harry í þýðingu og leikstjórn Harðar Sigurðarsonar. Það gekk vonum framar að manna í 9 manna farsa og færri komust að en vildu. Æfingar gengu vel, eins hönnun leikmyndar sem var í höndum Maríu B. Ármannsdóttir sem hafði nýlokið námskeið í sviðsmynda og búningahönnun hjá Bandalagi íslenskra leikfélaga með styrk frá LK. Frumsýnt var 1. nóvember, sýnt var fyrir og eftir áramót. Sýningar urðu 12 talsins og aðsókn var með ágætum.

Stjörnuljósakvöld

Stjörnuljósakvöld var í seinna fallinu þetta árið. Yfirleitt hefur það verið fyrsta laugardag eftir afmæli félagsins sem er 5. jan. Leikmyndin í farsanum gerði það að verkum að það þurfti að seinka stjörnuljósakvöldinu. Stór sófi spilaði stóran þátt í leikmyndinni og hann var boltaður fastur við gólfið á miðju sviðinu!

Skemmtidagskrá var í kvöldvökuformi. Ýmsir aðilar stigu á stokk og heppnaðist kvöldið vel. Allir höfðu gaman að.

Leiklistarnámskeið fyrir byrjendur

í febrúar bauð Leikfélagið upp á námskeið fyrir byrjendur í leiklist fyrir fullorðna. Kennari var Hörður Sigurðarson. Alls voru 10 manns á námskeiðinu. Námskeiðið var alls 18 klst. Félagið hefur boðið upp á sambærilegt námskeið ár hvert og var almenn ánægja með námskeiðið eins og endranær. Sex af þátttakendunum tóku síðan þátt í leikþáttadagskrá nú í vor og stigu þar með sín fyrstu skref á sviði. 

Leiklistarnámskeið fyrir unglinga

Eins og áður bauð leikfélagið upp á námskeið fyrir unglingana. Kennari var Gríma Kristjánsdóttir. Kennt var einu sinni í viku til að byrja með en oftar eftir því sem leið að lokum námskeiðs. Uppi voru hugmyndir um samstarf við Grunnskóla Kópavogsbæjar að bjóða þessi námskeið sem hluta af leiklistarvali í eldri bekkjum grunskólannia. Sú umræða fór heldur seint af stað og ekki náðist í tíma að skipuleggja það til hlýtar.

Að þessu sinni var námskeiðið haldið eftir áramót. Ástæðan var Farsinn sem var settur upp í haust og erfitt að vera með námskeið á sama tíma, enda tók leikmynd farsans mikið pláss á sviðinu. Námskeiðið byrjaði í febrúar og það varð ofan á að þetta var samstarfsverkefni Leikfélagsins og Kópavogsbæjar. Ákveðið var að bjóða námskeiðið frítt og tengja námskeiðið við Barnamenningarhátíð. Ljúka átti námskeiðinu í Salnum í Kópavogi þegar Barnamenning stæði sem hæst. Skemmst er frá því að segja að mjög dræm þátttaka var á námskeiðið, þrátt fyrir samstarfið og að Kópavogsbær auk okkar auglýsti námskeiðið á sínum síðum og dreifði auglýsingu frá LK inn í skólana. Sex krakkar byrjuðu en aðeins 3 luku námskeiðinu. Ekkert varð úr að að sýna í Salnum eins og lagt var upp með í fyrstu, enda var sýningin alltaf að taka breytingum vegna smæðar hópsins. Það endaði þó með sýningu í Leikfélagi Kópavogs í apríl eftir 10 vikna námskeið.

Undirrituð spyr sig hvers vegna þátttaka á námskeið hjá okkur fer sífellt minnkandi með ári hverju. Er það samkeppninni um að kenna? Nú er til dæmis boðið upp á leiklistaráfanga í flestum skólum Kópavogs. Auglýsum við ekki nægilega vel? Við í stjórn félagsins þurfum að gera breytingar með fyrirkomulagið því það er nokkuð ljós að við getum ekki startað unglinganámskeiði á næsta leikári án verulegra breytinga.

Álfhólsskóli

Álfhólsskóli í Kópavogi fékk afnot af Leikhúsinu í 2 vikur í febrúar. Æfði og sýndi söngleikinn Grease. 

Menntakólinn í Kópavogi

Eins og endranær fékk Leikfélag Menntaskólans í Kópavogi, Sauðkindin, afnot af húsinu í 3 vikur eins og kveðið er á um í samningi Leikfélags Kópavogs við Kópavogsbæ. Árið í fyrra var reyndar undantekning þar sem MK afþakkaði húsið með fyrirvara, sem kom LK mjög vel vegna velgengi sýningarinnar Fróði og allir hinir grislingarnir. 

Fráteknar voru 3 vikur í vor frá 1. mars til 21. mars fyrir MK. Í stuttu máli fór það svo að Leikfélag Menntaskólans sá sér ekki fært að nota húsið og lét vita af því þegar vika var liðin af umræddum tíma. Teljum við í stjórn Leikfélagsins þetta afar hvimleitt þar sem við annars vegar skipuleggjum starfsemi okkar að hluta til í kringum veru MK í húsinu, en hins vegar hefðum við getað leigt út húsnæðið á þessum tíma ef við hefðum haft vitjneskju um það fyrr, að ekkert yrði af því að MK kæmi í húsið. Húsið var því ekki í notkun í 3 vikur samfelltá þessu leikári.

Kvikmyndaskólinn

Kvikmyndaskólinn leigði Leikhúsið fyrir sín verkefni á vorönn. Hann hafði húsið til afnota í 2 vikur í maí að þessu sinni. Allt gekk vel og fór vel fram.

Leikþáttadagskrá

Eftir að veru Kvikmyndaskólans í húsinu lauk byrjuðu æfingar á fullu á nýrri leikþáttadagskrá sem við kusum að nefna Leikróf. Um var að ræða sex leikþætti, en fljótt var ljóst að tveir þættir yrðu ekki með vegna veiknda leikara. Æft var stíft í þrjár vikur og frumsýnt var 1. júní. Alls tóku níu leikarar þátt í dagskránni og þar af sex nýir leikarar eins og fyrr segir. Þetta tókst með ágætum og sýnt var tvisvar við nokkuð góða aðsókn.

Eins og sjá má af ofangreindu var leikárið fjölbreytt að venju en líka nokkuð hnökrótt. Það gekk illa að fá krakka til að stunda leiklist hjá okkur, húsið var ekki eins vel nýtt og það hefði geta verið, eins var aðsókn á sýningar heldur minni en við áttum von á. Í það minnsta virtist vera erfiðara en áður að ná til fólks og fá það á sýningar Spurningin er ; hvað veldur? Það er alltaf gott að setjast niður og horfa yfir farinn veg, sjá hvað hefur tekist vel og hvað mætti betur fara. Við erum jú alltaf að læra. Það að horfa til baka eflir mann í því að langa að gera betur og þannig að sjá tækifærin og framtíðina í björtu ljósi með nýjum og skemmtilegum hugmyndum. Nú þegar er næsta leikár byrjað að mótast og við getum ekki beðið eftir að takast á við það! Spennandi timar eru framundan! 

Lifi leiklistin!

Fyrir hönd stjórnar,
Anna Margrét Pálsdóttir
Formaður LK