Frá opnun leikhússins að Funalind fyrir fimm árum hefur starfsemi leikfélagsins vaxið ár frá ári. Nýliðið leikár var engin undantekning frá því enda hófst það snemma með sýningu á Hringnum í Þjóðleikhúsinu í júní. Því ævintýri var alls ekki lokið því í október skundaði hópurinn til Rokiskis í Litháen og tók þar þátt í Interrampa leiklistarhátíðinni.Vorum við þar í hópi nokkurra leikhópa frá Litháen auk sýninga frá Armeníu og Hollandi og einnig tóku listamenn frá Póllandi og Rússlandi þátt.
Unglingadeildin hóf störf í október undir stjórn Ástbjargar Rutar Jónsdóttur. Byrjað var á námskeiði og síðan tekið til við að æfa upp heimasmíðaða leiksýningu. Hún leit dagsins ljós í nóvember og bar heitið Milli tveggja heima.Var þar á ferðinni falleg saga um reynsluheim unglingsins, skemmtilega flutt af 12 manna hópi. Sýnt var 4 sinnum.
Hörður Sigurðarson hélt framhaldsnámskeið í september og október fyrir þá sem verið höfðu á byrjendanámskeiði árið áður. Sá hópur ásamt nokkrum til viðbótar æfði síðan upp nokkra leikþætti sem forsýndir voru á Stjörnuljósakvöldi þ. 5. janúar sem er afmælisdagur félagsins. Voru þar 4 leikþættir sýndir undir samheitinu Harmur, hundar og hýrar konur. Einn þáttur var eftir Örn Alexandersson sem einnig leikstýrði en Hörður leikstýrði tveimur eintölum eftir Dario Fo og Franca Rame og að auki Girnd á Geirsnefi eftir Dennis Schebetta. Samtals var sýnt 4 sinnum í janúar og febrúar fyrir fullu húsi. Eintölin tvö í flutningi Helgu Bjarkar Pálsdóttur og Hildar Tryggvadóttur voru síðan sýnd á einþáttungahátíð Bandalags íslenskra leikfélaga í Logalandi í Borgarfirði við góðar undirtektir.
Í desember var kallað til kynningar á stóra verkefni ársins sem var leikgerð á Guttavísum og fleiri kvæðum eftir Stefán Jónsson. Örn Alexandersson gerði leikgerð og leikstýrði. Frumsýnt var 22. febrúar. Sýningin hlaut mikla aðsókn enda spurðist hún vel út auk þess sem við fengum mjög góða umfjöllun í barnablaði Morgunblaðsins og einnig voru atriði úr sýningunni sýnd í Stundinni okkar. Gert var mánaðarhlé á sýningum þegar Leikfélag MK kom í húsið en þráðurinn tekinn upp að nýju eftir páska.Alls var sýnt 12 sinnum og var uppselt á allar sýningar.
Blásið var til byrjendanámskeiðs í leiklist í lok janúar og sóttu það 8 manns. Sá hópur ásamt tveimur gestaleikurum sýndi síðan 4 leikþætti í maí undir yfirheitinu 4 x Tveir. Sýnt var tvisvar fyrir fullu húsi við góðar viðtökur. Hörður Sigurðarson stjórnaði námskeiðinu og leikstýrði leikdagskránni.
Þá má geta þess að 7 meðlimir félagsins fóru í Leiklistarskóla BÍL á Húnavöllum síðastliðið sumar á námskeið í leiklist, trúðleik og leikstjórn.
Áfram var haldið framkvæmdum og tækjakaupum fyrir leikhúsið. Fest voru kaup á 8 kösturum og einnig fjárfestum við í tveimur dimmerum svo nú eru 36 rásir til reiðu fyrir ljósameistara í húsinu sem auðveldar alla vinnu, sérstaklega þegar fleiri en ein sýning er í gangi. Þá er búið að koma upp fyrirtaks æfingaljósum í sal svo ekki þurfi að keyra ljóskerfið að óþörfu sem ætti að spara rafmagn og perur. Einnig má nefna að keypt var ný tölva og hugbúnaður fyrir hljóð og mynd auk skjávarpa. Hefur sá búnaður þegar sannað gildi sitt.Töluvert hefur verið unnið í frágangi og lagfæringum í húsinu og að öðrum ólöstuðum hefur Bjarni Daníelsson farið þar fremstur í flokki. Er honum hér með þakkað fyrir góð störf. Fjölmargir hafa lagt hönd á plóg á sviðinu sem utan þess og færir stjórn þeim einnig þakkir.

Leikhúsið var leigt og lánað til ýmissa verkefna á liðnu ári. Má þar fyrst nefna leikhópinn ONE sem hóf æfingar í október og frumsýndi síðan og sýndi verkið Tamam Shud eftir áramót. Unnu þeir að jafnaði á daginn og gekk samstarfið með eindæmum vel enda ljúft fólk þar í forsvari.
Leikfélag MK fékk húsið til umráða í byrjun mars. Eftir mjög gott samstarf og umgengni á síðasta ári seig aðeins á ógæfuhliðina og gekk á ýmsu. Á því er enginn vafi að koma MK í húsið hefur afar truflandi áhrif á starfsemi okkar. Engin augljós lausn er á því máli en ljóst að vilji okkar er til breytinga þegar rekstrarsamningur við bæinn verður tekinn til endurskoðunar árið 2017.
Kvikmyndaskólinn tók húsið á leigu samkvæmt venju í desember og einnig 2 vikur í maí. Samstarfið við þau gengur með miklum ágætum þar sem umgengni og frágangur er til fyrirmyndar.
Leikfélagið Grímnir sýndi 2 sýningar á Karíus og Baktus í Leikhúsinu fyrir áramót. Hópur á vegum félagsmiðstöðvarinnar Molans tók húsið á leigu nú í byrjun júní og einnig var eitthvað um dagparts- og dagsleigu á húsinu m.a. til kvikmyndagerðar og útskriftarsýninga svo eitthvað sé nefnt.
Sú nýjung var tekin upp á þessu leikári að ganga til samninga við Miðakaup um sölu og skipulag miðasölu. Hefur það gengið afar vel þó ýmsir hnökrar á kerfinu hafi hamlað. Aðstandendur Miðakaupa hafa þó brugðist vel við kvörtunum og óskum og allar líkur á að við höldum áfram að nýta okkur þjónustu þeirra.
Fyrir hönd stjórnar LK Hörður Sigurðarson