„Í húsinu á horninu á heima skrýtið fólk …“ – svona hefst upphafssöngur leikritsins Fróði og allir hinir grislingarnir eftir Ole Lund Kirkegaard sem Leikfélag Kópavogs frumsýnir 3. mars 2018. Og þetta er vægt til orða tekið! Í téðu húsi búa m.a. ástsjúkar ungfrúr, geðstirður kall og kátir krakkar sem finna upp á ýmsu sem fullorðna fólkinu finnst að þau ættu bara alveg að láta eiga sig. En þegar skelfileg innbrotaalda ríður er brýnt að allir snúi bökum saman og klófesti þjófinn á hlaupahjólinu! Og þá reynast Fróði og félagar betri en enginn.
Sagan um Fróða og alla hina grislingana kom fyrst út á bók á íslensku árið 1983. Fimm árum síðar færði Leikfélag Kópavogs söguna á svið í danskri leikgerð, Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson þýddi en Valgeir Skagfjörð leikstýrði. Skemmst er frá að segja að sýningin sló í gegn og sýnt var 3–4 sinnum í viku, frá hausti og fram að páskum. Og þótt tjaldið félli um síðir í hinsta sinn lifði minningin um Fróða og vinir hans í bráðskemmtilegum sönglögum Valgeirs Skagfjörð sem gefin voru út á plötum og snældum.
Í tilefni af því að 30 ár eru frá því að Fróði sleit fjölunum í Félagsheimili Kópavogs var ákveðið að kalla fram á ný þetta indæla fólk því kynslóðirnar sem á eftir hafa komið eiga það skilið að kynnast fjöri og ærslum sögunnar, og fá á heilann öll skemmtilegu og grípandi lögin. Talandi um kynslóðir má til gamans geta þess að Örn Alexandersson, sem lék bráðungur ýmis hlutverk í upphaflegu sýningunni, situr í leikstjórastólnum að þessu sinni og með hlutverk Fróða fer 15 ára piltur, Páll Bjarnason, en móðir hans túlkaði hlutverk Stínu, vinkonu Fróða, fyrir 30 árum.
Alls tekur vel á annan tug leikara þátt, bæði unglingar sem starfað hafa með unglingadeild félagsins og reyndari og ráðsettari leikarar. Þá er heil hljómsveit á sviðinu sem flytur geðþekk lög Valgeirs.

Sögur Ole Lund Kirkegaards, t.d. Gúmmí-Tarsan, Fúsi froskagleypir, Ottó nashyrningur og Virgill litli – og auðvitað Fróði og allir hinir gríslingarnir – hafa notið einstæðra vinsælda á Íslandi og þykja ávísun á ósvikna skemmtun. Og svo er um Fróða og alla hina gríslingana, hér á ferðinni fjör og fyndnar uppákomur í ómældum skömmtum og því ástæða til að hvetja alla til að rífa sig og börnin upp úr fjaðrasófunum, frá snjall-hinu og snjall-þessu og drífa sig í leikhús og upplifa ærlegt gaman.

Miðapantanir á sýninguna

Aðstandendur sýningar:

Höfundur: Ole Lund Kirkegaard
Þýðandi: Aðalsteinn Ásberg
Höfundar tónlistar: Valgeir Skagfjörð
Leikstjórn: Örn Alexandersson
Leikmynd: Norðanbál
Búningar: María Björt Ármannsdóttir
Tónlistarstjóri: Halldór Sveinsson
Hljómborð: Halldór Sveinsson
Gítar: Ingvar Örn Arngeirsson
Bassi: Valdimar Lárus Júlíusson
Trommur: Guðlaug Björk Eiríksdóttir
Baritónhorn: Páll Bjarnason
Aðstoð vegna tónlistar: Jósep Gíslason
Ljós: Skúli Rúnar Hilmarsson
Aðstoð ljós og hljóð: Eggert Orri Herrmannsson
Plakat og leikskrá: Hugsasér hf. – Einar Samúlesson
Hvíslarar: Sigrún Tryggvadóttir, Þórdís Sigurgeirsdóttir
Persónur og leikendur:
Fróði: Páll Bjarnason
Stormur: Stefán Bjarnason
Lóa: María Björt Ármannsdóttir
Írena: Sunneva Lind Ólafsdóttir
Útvarpsmaður: Valdimar Lárus Júlíusson
Lögregluþjónn: Valdimar Lárus Júlíusson
Kennari: Sigríður Björk Sigurðardóttir
Sandra: Guðlaug Björk
Stína: Selma Rán
Lilli: Páll Ísak Ægisson
Lárus: Ingvar Örn Arngeirsson
Nína: Ásthildur Þorgilsdóttir
Þjófurinn á hlaupahjólinu: ?