Leiklistarskólinn nemendur
Í júní 2014 sóttu 8 félagsmenn námskeið í Leiklistarskóla BÍL. Þar sem aðalfundur er haldinn seinna í ár en venjulega er einnig hægt að upplýsa að í ár sóttu 3 félagsmenn námskeið í skólanum. Það hefur verið stefna félagsins að reyna að styrkja félagsmenn með smá framlagi til að sækja sér menntun í skólanum og mun svo verða áfram.
Götuleikhúsið
Götuleikhús Kópavogs fékk inni í húsinu samkvæmt venju í júní og júlí í fyrra. Gekk þar allt með prýði eins og ávallt áður. Hópurinn er svo kominn inn að nýju og skemmtilegt frá því að segja að umsjónarmenn eru báðir fyrrverandi meðlimir í unglingadeild leikfélagsins.
Elskhuginn
Fyrsta leikverk leikársins fór í vinnslu þegar síðastliðið sumar. Þar var á ferð ekkert minna en Elskhuginn eftir Nóbelskáldið Harold Pinter. Örn Alexandersson stýrði Arnfinni og Önnu Margréti í þessu margslungna verki. Frumsýnt var í byrjun október og var sýnt 6 sinnum við ágæta aðsókn og góðar undirtektir. Gagnrýnandi sagði m.a. að hér væri á ferðinni “… prýðileg sýning sem áhugafólk um leiklist og leikhús ætti ekki að missa af.”
Stuttverkahátíð NEATA
Óvænt barst félaginu beiðni um að halda Stuttverkahátíð NEATA laugardaginn 4. október. Fyrirvarinn var aðeins nokkrir dagar en samhentur hópur þeirra Skúla, Klæmint og Harðar skipulagði og sá um sviðssetningu 15 leikþátta, þriggja frá Færeyjum og 12 frá Íslandi. Trúðurinn Sessa, góð vinkona Ernu Bjarkar sá um kynningar og uppistand á milli sýninga við mikinn fögnuð gesta. Fékk félagið almennt mikið hrós fyrir snurðulausa og fagmannlega framkvæmd hátíðarinnar.
Barna- og unglinganámskeið
Hefðbundin starfsemi unglingadeildar fór fram september til nóvember. Eins og árið áður voru tveir hópar að störfum, 11-12 ára og 13-16 ára. Leiðbeinandi var Guðmundur L. Þorvaldsson og honum til halds og trausts var Helga Björk Pálsdóttir.
Yngri hópur mætti vikulega í 1 klst. í senn, 10 sinnum alls. Í lokin var foreldrum og aðstandendum boðið að sjá afrakstur námskeiðsins sem var hið skemmtilega frumsamda leikverk Hótel Paradís.
Eldri hópur hittist einnig vikulega en í 2 klst. í senn. Að afloknu námskeiði hófust æfingar á leikverkinu Strandaglópum sem Guðmundur leiðbeinandi samdi í samvinnu við hópinn. Verkið fjallaði um hóp fólks sem lendir í skipsskaða og skolar upp á eyðieyju. Sýnt var tvisvar sinnum við ágæta aðsókn og undirtektir.
Stjörnuljósakvöld og Trú, von og trúðleikur
Stjörnuljósakvöld, árleg innanfélagsskemmtun LK var haldin fyrsta laugardag ársins skvt. venju. Þar voru sýndir 6 leikþættir, þar af 4 frumsýndir. Þættirnir voru Leikboðinn eftir Örn Alexandersson, Bæn eftir Fernando Arrabal, Man það ekki alveg í augnablikinu… eftir Nick Zagone, Charlie eftir Fjölni Gíslason, Áttu íbúfen, ég er með svo mikla trúðverki eftir Fjölni Gíslason og Jón Gunnar Garðarsson og Á stofunni eftir Bjarna Guðmarsson. Auk þess voru tónlistaratriði á dagskránni sem lukkaðist vel. Leikdagskráin var síðan sýnd aftur síðar í vikunni undir heitinu Trú, von og trúðleikur.
Óþarfa offarsi
Í lok nóvember var samlestur á stóra verkefni vormisseris sem var nýr bandarískur farsi er nefndist Óþarfa offarsi á íslensku. Hörður Sigurðarson leikstýrði og þýddi. Kastað var i hlutverk og æfingar hafnar en síðan var gert hlé yfir jólahátíðina. Frumsýnt var að lokum 21. febrúar, öllu síðar en áætlað var. Ástæðan fyrir því var mikil afföll í leikarahópnum en um miðjan janúar kom í ljós að fá þurfti inn nýjan leikara fyrir Friðfinn sem forfallaðist vegna hásinarslits. Héðinn stökk inn fyrir hann með miklum glæsibrag. Rúmri viku fyrir frumsýningu heltist síðan Arnfinnur úr lestinni en til allrar hamingju áttum við hauk í horni þar sem Örn Alexandersson er en hann vílaði ekki fyrir sér að stökkva inn þó svo skömmu fyrir frumsýningu væri. Þess má geta að þegar ráðist var í aukasýningar í apríl þurfti Anna Margrét að draga sig í hlé en Hrefna kom inn fyrir hana. Það hefur því nær helmingur upphaflegs hóps þurft að draga sig út úr sýningunni sem hlýtur að vera einhverskonar met.
Offarsinn var sýndur 12 sinnum og var aðsókn góð. Valinn maður var í hverju rúmi utan sviðs sem innan enda báru ummæli gesta þess vitni. Sérstaklega verður þó að nefna frábæra vinnu þeirra Klæmint og Nicolaj við leikmyndina sem gerði mikið fyrir sýninguna. Áhorfendur voru duglegir að tjá sig um sýninguna á félagsmiðlunum og notuðu sumir hástemmd lýsingarorð. Leyfum þó gagnrýnanda Leiklistarvefsins þó að eiga síðasta orðið um sýninguna en m.a. sagði hann “… í stuttu máli er uppsetning Leikfélag Kópavogs á Óþarfa offarsi hreint út sagt æðisleg.”
Kvikmyndaskólinn
Kvikmyndaskólinn fékk inni í húsinu í desember samkvæmt venju. Samkvæmt venju var samstarfið gott og umgengni og samskipti eins og best verður á kosið.
Því miður urðum við hinsvegar að neita skólanum um aðstöðu í vor. Ástæðan er einfaldlega sú að starfsemi félagsins leyfir ekki lengur að láta húsnæðið á þessum tíma í útleigu. Þó það sé í sjálfsögðu gleðilegt að starfsemi okkar sé orðin svo mikil, þykir okkur miður að geta ekki hýst skólann sem hefur verið einn af okkar dyggustu og bestu leigjendum frá upphafi. Þess má geta að skólinn fékk inni í Bæjarbíói í Hafnarfirði og gekk það að sögn vel.
Leikfélag MK
Sorgarsagan með Leikfélag MK hélt áfram á leikárinu. Stjórn sendi bréf til Nemendafélags MK með afritum á Skólameistara MK, Bæjarráð og Lista- og menningarráð síðastliðinn ágúst þar sem reifaðar voru umkvartanir okkar vegna veru MK í húsinu í gegnum tíðina. Svar barst nokkrum vikum síðar undirritað af formanni Nemendafélagsins og Margréti Friðriksdóttur skólameistara. Inntak bréfsins var frómt frá sagt að bréfritarar blésu á umkvartanir félagsins og sögðu þær ýmist ýktar úr hófi eða jafnvel tilbúnar. Jafnframt héldu bréfritarar fram þeirri skoðun sinni að félaginu kæmi einfaldlega ekki við hvernig umgengni væri í húsinu meðan MK hefði það til umráða. Stjórn var skiljanlega brugðið við þessi viðbrögð og sendu annað bréf þar sem þessum staðhæfingum var vísað til föðurhúsanna og jafnframt lýsti stjórn því yfir að leikfélag MK kæmi því einungis inn í húsið á leikárinu ef fallist yrði á húsreglur sem settar voru fram í upphaflega bréfinu. Ekki heyrðist aftur í formanni NMK né skólameistara en greinilega hafa þau þó kvartað undan félaginu við kjörna fulltrúa bæjarins og/eða embættismenn, því seint í október var formaður LK boðaður á fund með Örnu Schram og Karenu E. Halldórsdóttur formanni L. og menningarráðs og Natalíu, nýjum formanni leikfélags MK. Á fundinum kom fram að Arna og Karen voru lítið inni í málinu og höfðu t.d. hvorug séð bréfasamskiptin sem sagt var frá að ofan. Nýr formaður leikféklags MK staðfesti hinsvegar flest það sem kvartað hafði verið yfir þar sem hún hafði verið óbreyttur þátttakandi í uppfærslu síðasta árs og upplýsti m.a. um ýmsar merkilegar athafnir fyrrum stjórnenda sem stjórn LK voru ókunnar. Til að gera langa sögu stutta lauk fundinum með því að Karen sagðist myndu ræða við skólameistara og formann Nemendafélagsins. Ekkert heyrðist um nokkurra vikna skeið þar til við vorum upplýst um að skólinn féllist á þá kröfu okkar að skipaður yrði umsjónarmaður af hálfu skólans. Þegar spurt var um afdrif annarra krafna okkar sagði Karen að best væri að LK og MK ræddu þetta milliliðalaust og sagðist myndu biðja Margréti að hafa samband.
Ekkert heyrðist frá MK frá októberlokum þar til um miðjan febrúar að formaður leikfélags MK hringir í formann LK og spyr hvenær hópurinn megi koma inn. Stóð hún í þeirri trú að búið væri að ganga frá samkomulagi.
Aftur styttum við langa sögu og á endanum féllumst við á sáttatillögu bæjarritara sem hafði verið blandað í málið, þar sem gengið var að helstu kröfum okkar. Einnig var gefið munnlegt loforð um að tækjaleiga 2 ára yrði greidd upp. Leikfélag MK kom inn í Leikhúsið 16. mars og ekkert breyttist, því miður. Umgengni var slæm, Securitas í stöðugu sambandi við formann LK þar sem brunakerfi var sambandslaust um lengri og skemmri tíma, svo eitthvað sé nefnt og til að kóróna skömmina neitaði Nemendafélagið að greiða tækjaleigu í bréfi sem skólameistari skrifaði persónulega undir. Eftir að hafa íhugað að vísa hópnum á dyr í ljósi þess að ekki var staðið við gefin loforð tók stjórn LK þá ákvörðun að leyfa hópnum að ljúka sýningum en stjórn er einhuga um að félagið geti ekki látið bjóða sér slíka framkomu í framtíðinni.
Ekki verður skilið við þessa tragedíu án þess að nefna að MK lofaði að ganga frá og fjarlægja sitt dót úr húsinu í síðasta lagi mánudaginn 31. mars. Formaður náði ekki að hitta formann leikfélags MK til að fara yfir frágang en fékk loforð þess efnis að allt dót yrði farið, húsið þrifið og tveir lyklar skildir eftir. Þegar að var komið kom í ljós að þrif voru í mýflugumynd, aðeins einn lykill skilinn eftir og tæki og tól frá MK á hráviði um andyri. Má þar nefna rafmagnsbassa á standi, bleksprautuprentara, strikamerkjaskanna, verkfærakassa, fatastanda og hljóðmixer svo eitthvað sé nefnt. Símhringingum og SMS sendingum vegna þessa var ekki svarað af formanni leikfélags MK. Ekki heyrðist hósti né stuna í 3 vikur vegna þessara muna en þá var loks haft samband og dótið loks fjarlægt. Engar spurnir eru hinsvegar af lyklinum sem ekki hefur enn verið skilað.
Leiklistarnámskeið
Í apríl hélt Hörður Sigurðarson leiklistarnámskeið og var það aðallega hugsað fyrir félagsmenn sem verið höfðu áður á námskeiði eða höfðu einhverja leikreynslu. 6 þátttakendur hófu námskeiðið en voru 5 þegar því lauk. Námskeiðið var samtals 18 klst.
Ást í meindýrum – 5 leikþættir
Í lok apríl hófst vinna við leikdagskrá sem frumsýna átti í lok maí. Fimm leikþættir voru sviðsettir undir stjórn 3ja leikstjóra, þeirra Guðmundar L. Þorvaldssonar, Stefáns Bjarnarsonar og Harðar Sigurðarsonar. Níu leikarar léku í eftirfarandi þáttum: Ást í hraðbanka eftir Bjarna Guðmarsson, leikstjóri Hörður Sigurðarson, Á veröndinni einn bjartan vormorgun eftir Alex Dremann, leikstjóri Hörður Sigurðarson, Bóksalinn eftir Örn Alexandersson, leikstjóri Stefán Bjarnarson, Líflína eftir Douglas Craven, leikstjóri Hörður Sigurðarson og Meindýr eftir Bjarna Guðmarsson, leikstjóri Guðmundur L. Þorvaldsson. Frumsýnt var 28. maí og önnur sýning var 30. maí. Dagskráin var ágætlega sótt og góður rómur að henni gerður.
Vinnudagur og leikárslokagrill
Sú hefð hefur skapast að ljúka leikárinu í júní með vinnudegi í leikhúsinu og grillveislu um kvöldið. Slíkt var gert á síðasta leikári og verður endurtekinn leikurinn nú laugardaginn 20. júní. Hnýtir það slaufu á afar viðburðaríkt og að flestu leyti vel heppnað leikár hjá Leikfélagi Kópavogs.
Fyrir hönd stjórnar LK,
Hörður Sigurðarson