Almennt
Eftir eitt viðamesta leikár frá upphafi á síðasta leikári var öllu rólegra yfir starfseminni nú í ár. Fjölmörg verkefni hafa þó verið í gangi og mun afraksturinn m.a. koma í ljós í haust.

Leiklistarskólinn nemendur
Í júní 2015 sóttu 3 félagsmenn námskeið í Leiklistarskóla BÍL. Það hefur verið stefna félagsins að reyna að styrkja félagsmenn með smá framlagi til að sækja sér menntun í skólanum og mun svo verða áfram.

Götuleikhúsið
Götuleikhús Kópavogs fékk inni í húsinu samkvæmt venju í júní og júlí í fyrra. Gekk þar allt með prýði eins og ávallt áður. Hópurinn er nú kominn inn að nýju.

Á rúmsjó
Fyrsta leikverk leikársins fór í vinnslu þegar síðastliðið sumar. Örn Alexandersson stýrði fimm leikurum í absúrdverkinu Á rúmsjó eftir Slavomir Mroszek. Frumsýnt var í byrjun október og var sýnt 6 sinnum við þokkalega aðsókn.

Barna- og unglinganámskeið
Hefðbundin starfsemi unglingadeildar fór fram september til nóvember. eins og venjulega. Eins og árið áður voru tveir hópar að störfum, 11-12 ára og 13-16 ára. Leiðbeinandi var Guðmundur L. Þorvaldsson og honum til halds og trausts var Guðlaug Björk Eiríksdóttir. Ástþór Ágústsson kom einnig við sögu í byrjun námskeiða þar sem Guðmundur var að leikstýra úti á landi. Þáttaka var með ágætum og samtals voru 20 þátttakendur á námskeiðunum tveimur.
Yngri hópur mætti vikulega í 1 klst. í senn, 10 sinnum alls en sá eldri jafnoft en í tvær klst. í senn.
Að loknum námskeiðum settu hóparnir upp hvor sína sýninguna á tveimur vikum og var sú nýbreytni viðhöfð að sýningarnar voru sýndar saman. Sýning yngri hóps hét Sumarbúðirnar Landnemaborgir og fjallaði um hóp barna sem koma í sumarbúðir þar sem afar strangar reglur eru við lýði og gera uppreisn. Sýning eldri hóps hét Hvíldu í friði og fjallaði um unglinga sem brjótast inn i hús sem talið er reimt.

Stjörnuljósakvöld
Stjörnuljósakvöld, árleg innanfélagsskemmtun LK var haldin 9. janúar. Þar voru sýndir 3 leikþættir auk ljóðalesturs og söngatriðis. Þættirnir voru Að vera eða ekki vera eftir Árna Friðriksson, Systur sveina eftir Guðmund L. Þorvaldsson og Töfrabragðið eftir Catherine Butterfield. Einnig var fluttur einskonar ljóðaleikþáttur undir stjórn Arnar Alexanderssonar. Tveir þriðju hlutar Leikhúsbandsins ásamt gestaleikara fluttu svo nokkur lög. Leikfélagar skemmtu sér svo saman inn í nóttina skvt. venju.

Kvikmyndaskólinn
Kvikmyndaskólinn kom ekki inn í desember eins og svo oft en fékk inni í húsinu í maí. Eins og jafnan var samstarfið gott og umgengni og samskipti eins og best verður á kosið. Hópurinn setti upp tvö frumsamin verk undir stjórn góðkunningja leikfélagsins, Rúnars Guðbrandssonar og tókst vel til.

Leikfélag MK
Ekki var laust við að kvíði sækti að stjórn þegar kom að árlegri innkomu MK í húsið, sérstaklega eftir mjög erfiðan tíma árið áður. Þess mun ánægjulegra var hve ótrúlega vel tókst til að þessu sinni. Þegar síðasta haust mátti greina mjög breyttan tón í forsvarsmönnum leikfélags og skólans sjálfs. Fólk var tilbúið að horfast í augu við að ekki hafði allt verið sem skyldi í umgengni og samskiptum og sýndi frá upphafi greinilegan vilja til að bæta úr. Tengiliður skólans við okkur, Sigrún Óskarsdóttir á mikinn heiður skilið fyrir að hafa verið með í ráðum áður en hópurinn kom inn, sýnt honum mikið og gott aðhald og verið í stöðugu sambandi við formann LK allan tímann til að tryggja að hlutirnir gengju upp. Forsvarsmenn leikfélags MK sýndu líka mikla jákvæðni, vilja og dugnað og eiga hrós skilið fyrir sinn hlut. Smáhnökrar komu upp en það voru í raun smámunir einir miðað við fyrri ár og ekki ástæða til að tíunda frekar hér.

Óperudagar
Óperudagar voru haldnir í Kópavogi í byrjun júní og leigðum við út húsið til að æfa og sýna óperusýningar Selshaminn og Poppea Remixed. Svo ánægðir voru söngvararnir með húsið að þeir fengu að framlengja veru sína í því til að æfa og sýna stuttóperuna Björninn sem þau hyggja á utanlandsferð með.

Leiklistarnámskeið
Hörður Sigurðarson hélt leiklistarnámskeið fyrir byrjendur í febrúar og mars. Sex þátttakendur voru skráðir til leiks, fjórir mættu í upphafi og einn bættist svo við. Námskeiðið var samtals 18 klst. Tveir úr hópnum eru nú að æfa upp leikþátt undir stjórn Harðar.

Leikdagskrá
Stefnt var uppsetningu á leikdagskrá í maí en tekin var sú ákvörðun að fresta henni til hausts. Þegar eru nokkrir þættir í æfingu og einhverjir munu eflaust bætast við.

Leitin að sumrinu
Eitt af þeim verkefnum sem verið hafa í gangi í vetur en frumsýnd verða í haust er nýtt barnaleikrit sem hlotið hefur heitið Leitin að sumrinu. Þar eru á ferð 3 gamlir leikfélagsmenn, þeir Guðmundur L. Þorvaldsson, Magnús Guðmundsson og Ástþór Ágústsson. Þeir félagar hafa unnið verkið í hópvinnu og markhópurinn er aldurinn 4-10 ára. Verkið verður nánar kynnt í haust.

Vinnudagur og leikárslokagrill
Sú hefð hefur skapast að ljúka leikárinu í júní með vinnudegi í leikhúsinu og grillveislu um kvöldið. Stefnt er að slíkum vinnudegi í sumar en ekki hefur verið ákveðið hvenær hann verður.

Afmælisár
Leikfélagið verður 60 ára á næsta leikári. Ýmislegt er á prjónunum vegna þess og ýmis verkefni þegar verið talin upp hér á undan. Ýmislegt fleira er á prjónum sem verður upplýst þegar nær dregur hausti.
Fyrir hönd stjórnar LK,
Hörður Sigurðarson