Enn einu viðburðarríku leikári hjá Leikfélaginu er lokið. Sem fyrr var starfsemin fjölbreytt og skemmtileg.
Leiklistarskóli Bandalagsins
Að þessu sinni fóru tveir einstaklingar frá Leikfélagi Kópavogs til að nema leiklistina í Leiklistarskóla BÍL í júní 2017. Að venju styrkti leikfélagið félagsmenn að hluta til að bæta menntun sína á sviði leiklistar og mun svo verða áfram. Stjórn telur það afar mikilvægt að styrkja virka félagsmenn með þessu móti og efla þannig innra starf leikfélagsins
Götuleikhúsið
Götuleikhúsið kom inn að venju í byrjun júní. Sem fyrr var umgengni til fyrirmyndar og engin vandamál komu upp.
Óperudagar
Í júní voru óperudagar haldnir í Kópavogi og leigði leikfélagið út húsið til afnota af því tilefni.
Snertu mig ekki – snertu mig!
Snertu mig ekki – snertu mig! er framhald af sýningunni Snertu mig! sem var sýnd á síðasta leikári. Vegna fjölda áskorana frá áhorfendum sem vildu vita meira um afdrif persónanna settist höfundur niður og skrifaði framhald. Sýningunni var vel tekið og fékk mjög góða dóma. Höfundur er Örn Alexandersson og leikstjóri var Sigrún Tryggvadóttir. Frumsýnt var í september. Alls var sýnt sjö sinnum og aðsókn var góð.
Leiklistarnámskeið fyrir krakka
Eins og áður bauð félagið upp á sín árlegu námskeið fyrir krakka undir styrkri leiðsögn Guðmundar L. Þorvaldssonar og Grímu Kristjánsdóttur. Þátttaka var dræm og þurfti að sameina yngri og eldri hóp í einn. Spurning um ástæður þessa, en nú er í meira mæli boðið upp á leiklistarnámskeið í grunnskólum bæjarins. Það má leiða að því líkum að það sé ein af hugsanlegum ástæðum þess að þátttakan var með minna móti. Alls tóku 7 krakkar þátt í námskeiðinu sem spannaði 10 vikur að vanda og endaði með sýningunni Draumaliðið sem var sýnd einu sinni fyrir fullu húsi þann 28. nóvember.
Almenn ánægja var með námskeiðið og má geta þess að 3 ungmenni sem tóku þátt í unglingastarfinu tóku einnig þátt í uppfærslu leikfélagsins á Fróða og öllum hinum grislingunum sem frumsýnt var í mars. Einn af krökkunum úr unglingastarfinu fer út til Frakklands á leiklistarmót ungmenna 13-15 ára í Toulouse í Frakklandi í sumar, þar sem markmiðið er að stunda leiklist og kynnast hópi barna hvaðanæva að úr heiminum með sama áhugamál. Mótið er styrkt af Evrópusambandinu.
Leiklistarnámskeið fyrir byrjendur
Í október bauð félagið upp á byrjendanámskeið í leiklist fyrir fullorðna. Kennari var Hörður Sigurðarson. Átta manns skráðu sig til leiks. Námskeiðið var alls 18 klst.
Almenn ánægja var með námskeiðið en félagið hefur boðið upp á sambærileg námskeið ár hvert.
Lista – og menningarráð
Þann 31.október var skrifað undir nýjan samning við Lista- og menningarráð sem gildir til 1. Nóvember 2020. Áhersla var lögð á að auka samstarf Leikfélagsins við ráðið og einnig að efla samstarfið við aðrar menningarstofnanir í Kópavogi. Nú þegar er meira samstarf við ráðið t.d buðu Leikfélagið og Kópavogsbær fjölskyldum á tvær sýningar af Fróða og alla hina grislingana í tilefni Barnamenningarhátíðar, kynning á Fróða var á Bókasafni Kópavogs sem er eitt af menningarhúsunum og fyrirhugað er að Leikfélagið taki þátt í fjölskyldudegi í Salnum í haust.
Við erum spennt fyrir frekara samstarfi á komandi leikári.
Framkvæmdastjóri
Stjórn ákvað að framlengja samning við framkvæmdastjóra hússins, en Hörður Sigurðarson var ráðin í það starf á síðasta leikári í fyrsta sinn. Hann sér um það sem viðkemur húsinu sjálfu og samskipti við þá aðila og hópa sem fá inni í Leikhúsinu. Þetta fyrirkomulag hefur gefist einkar vel og minnkar álag á stjórn félagsins.
Framkvæmdir innanhúss
Upplyfting andyris var kláruð. Einnig var farið í það að taka áhorfendasvæði í gegn. Stæði hækkuð, tröppur lagaðar og bætt við 12 sætum í sal. Nú er pláss fyrir 72 áhorfendur. Í febrúar tók stjórn sig til og lagaði aðstöðu leikara baksviðs og fyrirhugað er að gera breytingar á sameiginlegu rými sem er á annarri hæð hússins.
Leikfélag MK
Forsvarsmenn Leikfélags Menntaskólans í Kópavogi létu vita snemma á leikárinu að félagið hugðist ekki nýta sér ekki aðstöðu LK að þessu sinni eins og undanfarin ár. Það verður að segjast eins og er að það kom félaginu einkar vel að slíta ekki í sundur sýningartímann í þær 3 vikur sem MK hefði annars komið inn í húsið. Það hefur sennilega átt nokkurn þátt í því að sýningar á Fróða og öllum hinum grislingunum gekk eins vel og raun ber vitni.
Kvikmyndaskólinn
Kvikmyndarskólinn kom inn í desember eins og fyrri ár, engin breyting þar á.
Stjörnuljósakvöld
Hið árlega stjörnuljósakvöld í tilefni afmælis leikfélagsins var á sínum stað í upphafi ársins. Stjórn leikfélagsins ákvað að þessu sinni að bjóða vinum okkar úr Leikfélagi Hafnarfjarðar til að taka þátt í dagskránni með okkur. Eins og flestum er ljóst eru vinir okkar húsnæðislausir og hafa því ekki aðstöðu til æfinga hvað þá sýninga. Sýndir voru 3 þrír leikþættir, allir í höndum LH, farið var með gamanmál og Leikhúsbandið steig á stokk að venju. Kvöldið heppnaðist með endemum vel, en óneitanlega skyggði sviplegt fráfall Sigurveigar Mjallar á gleðina, en hún var virk í leiklistarstarfi LH og hafði einnig leikið mikið með LK. Blessuð sé minning hennar.
Fróði og allir hinir grislingarnir
Samlestur á Fróða og öllum hinum grislingunum hófst í desember og æfingar hófust strax eftir áramótin. Þrjátíu ár eru síðan leikfélagið setti upp þetta frábæra barnaleikrit eftir Ole Lund Kirkegaard og ákvað stjórn að dusta rykið af handritinu og endurtaka leikinn.
Tólf leikarar tóku þátt í sýningunni, þar af eins og áður segir, þrír krakkar úr unglingadeild félagsins. Leikstjóri var Örn Alexandersson.
Frumsýnt var 3. mars. Sýningin naut gífurlegra vinsælda þá og er hægt að segja með sanni að hún hafi einnig slegið í gegn nú. Uppselt var á nær allar 16 sýningarnar, þar af voru 3 einkasýningar fyrir grunnskóla í Kópavogi og 2 sýningar í tilefni af Barnamenningarhátíðinni. Áhorfendur voru himinlifandi og tóku sýningunni opnum örmum, bæði ungir sem eldri (sem höfðu jafnvel séð sýninguna á sínum tíma). Alls sáu yfir þúsund manns sýninguna.
Erfitt var að segja skilið við Fróða og alla hina grislingana í ljósi frábærrar aðsóknar og sárt að hætta fyrir fullu húsi. En önnur verkefni bíða og ekki hægt að ætlast til þess að svo stór leikarahópur geti haldið sýningum áfram í haust. Það kom einnig á daginn. Því var leikmynd Fróða tekin niður og sýningin kvödd með dassi af trega.
Svarti kassinn
Leikfélagið sótti um að fara fyrir hönd Íslands á leiklistarhátíðina NEATA 2018 í Litháen með sýninguna Svarta kassann sem verður haldin um mánaðarmót júlí /ágúst. Skemmst er frá því að segja að sýningin var valin og standa nú yfir æfingar og skipulagning ferðar hópsins út á erlenda grund. Sýningin fékk á sínum tíma frábæra dóma, en hún er samsköpunarverk handritshöfundar, leikstjóra og leikhópsins. Höfundur er Hrefna Friðriksdóttir, leikstjóri er Ágústa Skúladóttir og leikhópinn skipa 10 manns. Stjórn er ekki í nokkrum vafa um að Svarti kassinn eigi eftir að verða verðugur fulltrúi Leikfélags Kópavogs og Íslands í Litháen seinna á árinu.
Hugsanlegt samstarf Leikfélags Kópavogs við Grunnskóla Kópavogs
Á vordögum byrjuðu viðræður við skólastjórnendur tveggja grunnskóla Kópavogs og deildarstjóra grunnskóla á sviði menntamála hjá Kópavogsbæ. Hugsanlegt samstarf er í farvatninu, að bjóða leiklistarnámskeið sem val í unglingadeildum grunnskóla Kópavogs í samstarfi við Leikfélagið. Við hlökkum til að sjá hvert það leiðir okkur og finnst spennandi að auka ennfrekar á samstarf félagsins við Kópavogsbæ.
Fyrir hönd Leikfélags Kópavogs
Anna Margrét Pálsdóttir
Formaður LK