Leikfélag Kópavogs er með margt spennandi á prjónunum á komandi leikári. Helstu liðir á starfsáætlun eru þessir:
Í september verður í boði leiksmiðja sem er hugsuð fyrir byrjendur og styttra komna í leiklist. Farið verður í grunnatriði sviðleiks og áhersla lögð á praktíska nálgun. Í lok leiksmiðjunnar verða æfðir upp stuttir leikþættir sem frumsýndir verða í byrjun nóvember.
Unglingadeild félagsins hefur störf 19. september með námskeiði undir stjórn Grímu Kristjánsdóttur. Í kjölfarið verður sett upp sýning sem áætlað er að frumsýna um miðjan nóvember. Unglingadeildin er opin þeim sem eru í 8.9. og 10 bekk grunnskóla og 1. bekk framhaldsskóla.
Í október verður haldið 3ja daga námskeið fyrir vana leikara undir stjórn Rúnars Guðbrandssonar sem á að baki langan og farsælan feril sem leikstjóri og leiklistarkennari.
Í nóvember hefjast æfingar fyrir nýtt leikverk með frumsaminni tónlist sem frumsýnt verður um mánaðamótin jan-feb. Verkið ber vinnuheitið Hringurinn.
Fljótlega eftir áramót heldur félagið svo sitt árlega Stjörnuljósakvöld sem er skemmtikvöld með blandaðri dagskrá.
Í apríl er síðan stefnt að vorverkefni sem enn er í mótun og verður nánar auglýst síðar.
Sjá nánar um einstaka liði hér fyrir neðan.