Nýlega birtist leikdómur um Gutta á vef Bandalags íslenskra leikfélaga. Þar segir leikdómarinn, Guðmundur Karl Sigurdórsson, m.a.:
„Höfundurinn og leikstjórinn, hinn fjölhæfi Örn Alexandersson, hefur sýnt það áður með skrifum sínum að hann kann að bregða penna á blað, t.d. með hinu stórskemmtilega barnaleikriti um Rúa og Stúa. Það er virðingarvert að koma þessum kvæðum og persónum Stefáns Jónssonar saman í eina sýningu, söguþráðurinn er einfaldur en Örn tekur víða á sprett og tengir verk Stefáns skemmtilega saman. … Leikararnir standa sig allir með prýði. … Sex ára gagnrýnandi sem sat við hliðina á mér í salnum skemmti sér hið besta enda þekkti hún bæði Guttavísur og Aravísur og sitthvað fleira. Henni fannst leikritið skemmtilegt og hló eftir á mikið að prakkarastrikum Gutta og sérstaklega að óförum Óla skans. Vísurnar voru líka sungnar á leiðinni heim og fram á kvöld … og er þá ekki töluverðum árangri náð? Fólk ætti að fjölmenna í Leikhúsið í Kópavogi og kynna börnin fyrir verkum Stefáns Jónssonar.“