Fyrir ári síðan var leikritið Snertu mig – ekki! frumsýnt hjá Leikfélagi Kópavogs og höfðu margir áhorfendur orð á því að þeir vildu fá að vita meira um afdrif þeirra hjóna og vinkonu þeirra. Eða eins og fram kom í niðurlagi leikdóms hjá Árna Hjartasyni á leiklist.is. „Áhorfendur klöppuðu leikurum, leikstjóra, höfundi og öllum aðstandendum lof í lófa í lok sýningar og voru sýnilega ánægðir með þessa kvöldstund. Það var undirritaður einnig en hefði þó alveg verið til í að sitja lengur og sjá meira af þessum ágætu hjónum í Kópavoginum og vinkonunni kæru og vandamálum þeirra“. Leikhópurinn ákvað að bregðast við þessu og grennslast fyrir um afdrif þeirra hjóna og vinkonunnar. Leikhópurinn fór því með höfundi í helgarferð í sumarbústað þar sem leitast var við að finna hver afdrif þeirra væru. Afraksturinn varð framhald af leikritinu sem fékk heitið „Snertu mig ekki! – Snertu mig“ og er nú sýnt sem leikrit í fullri lengd þannig að þeir sem sáu í fyrra geta rifjað upp og komist að afdrifum þeirra hjóna og vinkonunnar og þeir sem ekki sáu geti nú séð sýninguna ásamt framhaldi. Frumsýning verður 15. september.