Eins og fram hefur komið verður efnt til mikillar leiklistarveislu á Akureyri í sumar. Þar er um að ræða norður-evrópsku leiklistarhátíðina Art of the Heart þar sem fulltrúar níu landa auk Íslands munu troða upp.

Valnefnd hátíðarinnar tilkynnti í gær um val á fulltrúum Íslands og er þar skemmst frá að segja að sýning Leikfélags Kópavogs, Umbúðalaust, var ein þriggja sýninga sem valin var sem fulltrúi lands og þjóðar. Umbúðalaust verður þar að auki opnunarsýning hátíðarinnar. Hinar íslensku sýningarnar verða uppfærsla Leikfélags Selfoss á Birtíngi og sýning Freyvangsleikhússins, Vínland. Einnig koma sýningar frá Svíþjóð, Færeyjum, Noregi, Danmörku, Finnlandi, Frakklandi, Litháen, Lettlandi og Rúmeníu.

Umbúðalaust var frumsýnt í Leikhúsinu í janúar. Verkið var unnið í spunavinnu undir stjórn Vigdísar Jakobsdóttur. Í kynningu var m.a. sagt:

Ellefu persónur. Ellefu hindranir. Óteljandi möguleikar. Óræðar persónur á óljósum stað eru knúnar til að taka málin í sínar hendur þegar óvænt atvik ber að garði. Saman og hvert í sínu lagi komast þau að því að þáttaskil marka ekki endilega sögulok – og þráðurinn sem þau fylgdu í byrjun er ekki endilega haldreipið sem þarf til að komast í örugga höfn.
Lesa nánar: Umbúðalaust á Akureyri