Einu viðburðaríkasta ári í sögu leikfélagsins er að ljúka. Starfsemin hefur verið meiri en nokkru sinni síðan við fluttum í Funalindina og gestakomur einnig tíðari en áður.
Í september og október stóð félagið fyrir tveimur námskeiðum. Rúnar Guðbrandsson hélt námskeið í leiktækni sem 6 manns skráðu sig á. Eitthvað kvarnaðist þó úr hópnum og því miður nýttist námskeiðið ekki eins og lagt var upp með sem var mikil synd enda Rúnar með afbrigðum öflugur kennari.
Þá hélt Hörður Sigurðarson byrjendanámskeið í leiklist og voru 7 þátttakendur á því. Að afloknu byrjendanámskeiði voru síðan settir upp 4 leikþættir sem sýndir voru í nóvember undir heitinu Ferna. Tókust þeir vel og voru sýningarnar þrjár vel sóttar.
Unglingadeild félagsins setti upp nýtt heimasmíðað verk sem bar nafnið Vertu úti og var þar unnið upp úr íslenskum þjóðsögum og ævintýrum á nýstárlegan hátt. Eins og árið áður var Gríma Kristjánsdóttir leiðbeinandi hópsins og skilaði hún góðu starfi. Vertu úti var sýnt 3 sinnum við ágæta aðsókn.
Í desember var haldinn undirbúningsfundur fyrir stóra verkefni vetrarins. Var þar unnið út frá hugmynd frá Herði og Sváfni Sigurðarsonum og hafði verkið vinnuheitið Hringurinn sem varð svo reyndar með tímanum heiti sýningarinnar. Hugmyndavinna hafði þá staðið yfir í nokkra mánuði ásamt Hrefnu Friðriksdóttur sem skrifaði að lokum handrit sem unnið var eftir.
Æfingar hófust í byrjun janúar og frumsýnt var 26. febrúar. Tólf leikarar tóku þátt í sýningunni og þar af um helmingur sem hafði gengið í félagið þá um haustið. Auk þeirra komu margir aðrir að sýningunni, sumir nýir en einnig lögðu hönd á plóg gamlir félagar sem verið höfðu í löngu hléi. Hringnum var vel tekið og aðsókn þokkaleg. Sýnt var 7 sinnum í febrúar og mars en þá þurfti að gera hlé á sýningum meðan Leikfélag MK fékk inni í húsinu. Þrjár aukasýningar voru í maí en eins og stundum áður reyndist erfitt að ná upp dampi eftir hlé. Rúsínann í pylsuenda Hringsins var síðan er valnefnd Þjóðleikhússins útnefndi sýninguna Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins og bauð félaginu að sýna í Þjóðleikhúsnu. Hringurinn verður sýndur í Kassanum föstudaginn 22. júní næstkomandi. Ekki er þó víst að þar með sé ævintýrið úti því sýningunni hefur verið boðið á leiklistarhátíð í Lithén í haust og eru allar líkur á að hópurinn fari þangað í haust.
Unglingadeild félagsins hafði ekki sagt sitt síðasta eftir Vertu úti, því í apríl hófust æfingar á leikþáttum undir stjórn Kristínar Rósar Birgisdóttur. Níu unglingar taka þátt í því verkefni og verður afraksturinn sýndur föstudaginn 8. júní.
Í maí hófst síðan höfundasmiðju undir stjórn Hrefnu Friðriksdóttur og sóttu það 7 upprennandi leikskáld úr félaginu. Þá hélt Hörður Sigurðarson aftur byrjendanámskeið í apríl og voru 8 þátttakendur á því.
Félagið hélt sína árlegu Stjörnuljósahátíð fyrstu helgi eftir áramót og áttu félagsmenn þar afar ánægjulega kvöldstund þar sem ýmislegt var til skemmtunar svo sem leikþættir, uppistand og tónlist.
Ónefnt er síðan af verkefnum leikársins, leikverk sem sýnt var eftir aðalfund fyrir ári síðan þar sem 6 örverkum var steypt saman í lauslega heild. Leikarar voru Erna Björk Einarsdóttir og Sigríður Björk Sigurðardóttir en Hörður Sigurðarson leikstýrði.
Starfsemi félagsins var eins og heyra má mikil á liðnu ári en auk þess hafa ýmsir gestir látið ljós sitt skína í húsinu. Fyrst er að telja Kvikmyndaskóla Íslands sem hefur verið fastur gestur í húsinu undanfarin ár. Leikdeild skólans setti upp leiksýningu hjá okkur í desember og aftur nú í maí. Samstarfið við Kvikmyndaskólann er með miklum ágætum og ber þar hvergi skugga á.
Leikfélag MK kom inn í húsið í mars og hafði það til umráða í 3 vikur. Afar vel gekk með samstarfið í fyrra eins og áður hefur komið fram en því miður voru ýmsir misbrestir að þessu sinni. Frágangur var ekki með þeim hætti sem við vildum og greinileg þörf á því að taka skipulagið fastari tökum.
Stoppleikhópurinn hefur einnig verið gestur okkar í vetur. Upphaflega fengu þau inni til að æfa upp leikverkið Hústökuna eftir Hrund Ólafsdóttur sem er reyndar gamall félagi okkar. Að lokum varð ofan á að þau frumsýndu verkið í húsinu og sýndu í allt 4 sýningar.
Að framansögðu má sjá að leikhúsið hefur verið í notkun nánast daglega í allan vetur og oft og tíðum hafa allt að þrír hópar unnið þar samtímis. Utansviðs hefur einnig margt verið í gangi. Verið er að vinna að því að ljúka ýmsum frágangi í rafmagnsmálum sem beðið hefur óþægilega lengi. Þá hefur félagið einnig fjárfest umtalsvert í tækjabúnaði og þá aðallega ljósabúnaði. Keyptir voru svokallaðir Socapex kaplar sem auðvelda til muna alla vinnu við ljós og auk þess bættust 11 nýir kastarar í safnið. Þegar allt er talið hefur félagið keypt tækjabúnað fyrir á aðra milljón króna á árinu. Frekari tækjakaup eru fyrirhuguð og má þar nefna loftræstikerfi sem mikil þörf er fyrir og einnig er fyrirhugað að fjölga ljósarásum með þvi að kaupa tvo sex rása dimmerrekka. Smám saman er tækjabúnaður okkar því að komast í ásættanlegt horf og að ári eða tveimur liðnum ættum við að státa af einu best búna leikhúsi landsins miðað við stærð.
Að lokum vill stjórn félagsins ljúka þessari skýrslu með því að rifja upp að eitt helsta markmið okkar á þessu leikári var að stækka leikhópinn og auka nýliðun og það hefur sannarlega tekist vel. Sést þess glögglega merki í ýmsum verkefnum okkar í vetur. Þó gott sé að vera vel tækjum búinn er það að sjálfsögðu fólkið sem er okkar helsta auðlind. Við þökkum nýjum sem eldri félagsmönnum fyrir skemmtilegt og gjöfult leikár og hlökkum til að hittast að nýju í haust.
f.h. stjórnar LK
Hörður Sigurðarson