Dómnefnd á vegum Þjóðleikhússins tilkynnti nú um helgina að Hringurinn í flutningi Leikfélags Kópavogs hefði verið valin Athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins. Félaginu hefur í kjölfarið verið boðið að sýna Hringinn í Þjóðleikhúsinu í júní. Í umsögn dómnefndar segir m.a:
“Leikfélag Kópavogs sýnir skemmtilega dirfsku í verkefnavali sínu en Hringurinn eftir Hrefnu Friðriksdóttur er óvenjulegt og frumlegt nýtt íslenskt leikrit. Leikstjórinn Hörður Sigurðsson og leikhópur blása svo lífi í þann lítt hversdagslega heim sem höfundur dregur upp mynd af í verki sínu. Við hverfum inn í furðuheim sirkussins þar sem spurningamerki eru sett við ýmsar viðteknar hugmyndir okkar og leggjum ásamt aðalpersónunni í ferð í leit að leyndarmálum fortíðar. Í meðförum Leikfélags Kópavogs verður þessi ferð full af spennu og ógnum, en jafnframt hugljúf og nostalgísk, meðal annars fyrir tilstilli tónlistar og myndbandsbrota sem sýna sirkuslífið í fortíðinni. Hinn sjónræni þáttur sýningarinnar er vel unninn og hugvitssamlegur og leikarar standa sig með prýði.”
Sjá nánar hér á vef Þjóðleikhússins.