Almennt
Leikfélagið fagnaði 60 ára afmæli á þessu leikári og því var starfsemin óvenju viðamikil að þessu sinni. Frumsýndar voru meðal annars þrjár frumsamdar leiksýningar. Flestir virðast vera sammála um að vel hafi tekist til.
Framkvæmdastjóri
Stjórn leikfélagsins samþykkti í upphafi leikárs þá nýjung að ráða Hörð Sigurðarson framkvæmdastjóra hússins. Hann hefur meðal annars séð um það sem viðkemur húsinu sjálfu og er tengill við hópa sem fá inni. Þetta hefur reynst einkar vel og hefur stjórn hug á að hafa sama fyrirkomulag á næsta leikári.
Leiklistarskóli Bandalagsins
Að þessu sinni sóttu þrír nemendur skólann frá Leikfélaginu í júní 2016. Eins og áður styrkti félagið nemendur með smá upphæð. Það er stefna félagsins að auðvelda félagsmönnum að sækja námskeiðin með því að styrkja þá að hluta og mun svo verða áfram.
Götuleikhúsið
Eins og áður var hópur frá Götuleikhúsinu í samvinnu við vinnuskóla Kópavogs í húsinu í júní og júlí. Engir hnökrar voru á veru þeirra í húsinu og umgengni til fyrirmyndar.
Snertu mig – ekki!
Fyrsta frumsýning leikársins var um miðjan september á verkinu Snertu mig – ekki! eftir Örn Alexandersson í leikstjórn Sigrúnar Tryggvadóttur. Alls voru átta sýningar á verkinu og aðsókn var góð.
Leitin að sumrinu
Önnur frumsýning leikársins fylgdi fast í kjölfarið, en barnaleikritið Leitin að sumrinu var frumsýnd í október. Þrír gamalreyndir félagar úr leikfélaginu þeir Guðmundur L. Þorvaldsson, Ástþór Ágústsson og Magnús Guðmundsson sömdu verkið og léku í því. Markhópurinn var 4-10 ára krakkar. Alls var sýnt 11 sinnum, 9 sýningar í Leikhúsinu og 2 sýningar voru keyptar af fyrirtæki og sýndar þar. Ekki sér alveg fyrir endann á þessu ævintýri og er hugur í leikhópnum að fara á flakk með sýninguna á næsta leikári.
Leiklistarnámskeið fyrir börn og unglinga
Að venju bauð leikfélagið upp á námskeið fyrir börn og unglinga í tveimur aldursflokkum. Námskeiðin voru frá september til loka nóvember eins og venja hefur skapast. Kennarar voru þau Guðmundur L. Þorvaldsson og Gríma Kristjánsdóttir. Yngri hópurinn voru 11-12 ára krakkar. Kennt var einu sinni í viku í 10 vikur, klukkutíma í senn. Eldri hópurinn voru 13-16 ára krakkar. Þau voru einnig einu sinni í viku í 10 vikur, en tvo tíma í senn. Þátttakan var þokkaleg en alls sóttu 15 krakkar námskeiðin sem enduðu með sameiginlegri uppfærslu á verkinu Þrautirnar þrjár, eftir kennara námskeiðsins. Sýnt var einu sinni fyrir vel fullu húsi og gengu sýningargestir ánægðir út, stoltir af sínum krökkum.
Leiklistarnámskeið fyrir byrjendur
Í október og nóvember bauð félagið upp á byrjendanámskeið í leiklist fyrir fullorðna. Kennari var Hörður Sigurðarsson. Tíu skráðu sig til leiks. Fimm af þeim tóku þátt í leikþáttadagskrá seinna á leikárinu og einn af þeim tók þátt í afmælissýningu leikfélagsins eftir áramót. Námskeiðið var alls 18 klukkustundir.
Stjörnuljósakvöld – 60 ára afmælishátíð Leikfélagsins
Hið árlega stjörnuljósakvöld var með örlitlu breyttu sniði en venjulega vegna stórafmælis Leikfélagsins, en það varð 60 ára þann 5. Janúar síðastliðinn. Stjórn lagði áherslu á upplyftingu andyris, en það var parketlagt, málað og saga félagsins í formi plakata o.fl. sett meðal annars upp á vegg. Afmælishátíðin sjálf fór fram þann 9. jan. Boðið var upp á veglegar veitingar og skemmtileg yfirferð um sögu félagsins í máli og myndum var í höndum Harðar Sigurðarsonar og Bjarna Guðmarssonar. Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. Kvöldið heppnaðist með miklum ágætum og skemmti fólk sér fram á nótt að venju.
Nýr og endurbættur vefur Leikfélagsins
Nýr vefur félagsins var tekin í notkun í kringum 60 ára afmælið. Töluverðar útlitsbreytingar voru gerðar á vefnum og markmiðið var að hleypa nýrri og betri tækni að og gera vefinn enn aðgengilegri fyrir notendur. Það er nýjung að hægt er að panta miða á leiksýningar í gegnum vef félagsins. Þetta hefur reynst einkar vel og önnur áhugaleikfélög hafa hug á að gera slíkt hið sama. Hörður Sigurðarson á þakkir skyldar fyrir frábæran vef.
Leikþáttadagsskrá
Leikþáttadagsskrá var frumsýnd í lok janúar. Eins og áður segir tóku fimm nýir félagar þátt í dagskránni ásamt eldri félögum og einum leikara úr unglingadeildinni. Sýndir voru þrír þættir; Listin að lifa eftir Siggu Láru Sigurjónsdóttur í leikstjórn Arnfinns Daníelssonar og tveir erlendir þættir. Annars vegar Blint stefnumót og hins vegar Sjóðandi fólk í leikstjórn Harðar Sigurðarsonar. Alls voru þrjár sýningar og var aðsókn nokkuð góð.
Leikfélag MK
Leikfélag Menntaskólans í Kópavogi kom inn í húsið að venju í kringum páska og voru í húsinu í 3 vikur. Eins og síðasta ár gekk það vel fyrir sig, ólíkt árunum á undan. Við viljum þakka það breyttu fyrirkomulagi. Nú sem í fyrra var Sigrún Óskarsdóttir tengiliður skólans við leikfélagið og gekk allt snurðulaust fyrir sig. Umgengni var til fyrirmyndar og góð samskipti voru á milli félagsins og MK meðan á dvöl þeirra stóð. Þau settu upp sýninguna Hrói Höttur við góða aðsókn.
Leikfélag Kópavogs
Kvikmyndaskólinn
Kvikmyndaskólinn kom inn í húsið í desember og aftur í maí. Lengi var tvísýnt með að hann fengi inni í vor vegna vangoldinna skulda fyrir leigu í desember, en sú skuld var greidd rétt áður en skólinn fékk inni. Skólinn setti upp frumsamið verk undir stjórn Ágústu Skúladóttur.
Svarti kassinn
Æfingar á Svarta kassanum, afmælissýningu félagsins, hófust í nóvember, en hugmyndin að sýningunni var þá þegar farin að mótast. Við fengum Ágústu Skúladóttur til að leikstýra, en hún hefur reynst okkur mjög vel og hefur komið að fjölmörgum uppfærslum hjá leikfélaginu. Hrefna Friðriksdóttir samdi handrit. Þetta var samsköpunarverkefni handritshöfundar, leikstjóra, leikhópsins og annarra sem að sýningunni komu. Tekið var hlé á æfingum sem hófust síðan aftur eftir að MK var farið úr húsi í lok mars. Frumsýnt var þann 28. apríl og alls var sýnt ellefu sinnum við góða aðsókn. Sýningin fékk frábæra dóma og sýningargestir virtust flestir mjög ánægðir. Leikfélagið hefur ákveðið að sækja um fyrir Svarta kassann á leiklistarhátíðina NEATA 2018. Búið er að undirstinga leikhópinn með það. Allir er tilbúnir að gefa kost á sér í þetta verkefni. Við höfum því hug á að setja sýninguna aftur upp næsta vor ef þetta gengur eftir. Þannig að við höfum vonandi ekki sagt skilið við Svarta kassann.
Leikhópurinn Ást og karokí
Leikhópurinn Ást og karokí komu inn í húsið þann 29. maí og sýndu: Sýningu um glímu og Slazenger. Alls voru sýningar 2 og aðsókn var góð.
Tiltektardagur og grillhátíð í lok leikárs
Við ætlum að halda í hefðina og hittast í leikhúsinu í lok júní. Ganga vel frá eftir annasamt leikár og gera tilbúið fyrir það næsta. Hugmyndin er að reyna að losa okkur við búninga og leikmuni sem ekki er lengur þörf fyrir og hafa „bílskúrssölu“ á bílastæðinu fyrir framan Leikhúsið. Það er ekki komin nákvæm dagsetning. Fyrirhuguð verður grillveisla um kvöldið til að loka þessu eftirminnilega leikári með stæl.
Fyrir hönd stjórnar,
Anna Margrét Pálsdóttir, formaður LK