Leikfélag Kópavogs sýnir barnaleikritið Ferðin til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur (1953-1986) sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í janúar 1966. Leikritið byggir á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama höfund sem kom út árið 1963. Leikritið var fyrsta leikritið eftir íslenska konu sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu. Leikritið hefur ekki verið sett upp síðan þó að það hafi hlotið mikla aðsókn á sínum tíma.
Tónlist í verkinu er eftir Ingibjörgu Þorbergs og er þekkasta verkið í laginu Sé tunglið allt út tómum osti.
Örn Alexandersson hefur starfað með Leikfélagi Kópavogs frá 1988 og m.a. setið í stjórn félagsins. Hann hefur tekið þátt í fjölda uppfærslna hjá Leikfélagi Kópavogs sem leikari, hannað leikmyndir og búninga og leikstýrt. Má þar nefna Elskhuga e. Harold Pinter, Á rúmsjó e. Slawomir Mrozek, Lík til Sölu e. Dario Fo og barnaleikritið Fróði og allir hinir grislingarnir e. Ole Lund Kirkegaard. Þá hefur hann einnig skrifað nokkur leikrit bæði fyrir fullorðna og börn auk leikþátta. Má þar nefna barnaleikritin „Gutti og félagar“ sem byggði á textum Stefáns Jónsonar og barnaleikritið Rúi og Stúi í samvinnu við Skúla Rúnar Hilmarsson sem hefur verið sett upp víðsvegar um landið. Leikrit fyrir fullorðna sem Örn hefur skrifað eru m.a. Fjallið og Snertu mig ekki – snertu mig. Örn hefur sótt fjölda námskeiða tengda leiklist s.s. í leikstjórn og leikritun.
Aðstoðarleikstjórinn
Sigrún Tryggvadóttir hefur starfað með Leikfélagi Kópavogs síðan 2007 en hafði áður starfað með leikfélaginu Leyndir draumar og var einn af stofnendum þess árið 1996. Sigrún hefur setið í stjórn LK og hefur áður leikstýrt leiksýningum og leikþáttum hjá félaginu og nú síðast Betri er þjófur í húsi en snurða á þræði eftir Dario Fo. Sigrún hefur einnig fengist við að skrifa stutta leikþætti og var meðal annarra meðhöfundur í uppfærslu Leikfélags Hafnarfjarðar á verkinu „Ekkert að óttast“ sem valin var Athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins 2016 af valnefnd Þjóðleikhússins. Sigrún hefur sótt fjölda námskeiða í leiklist s.s. leikstjórn og leikritun.